Borgarráð samþykkti í morgun tillögu Besta flokksins og Samfylkingarinnar um að Reykjavíkurborg falli frá kröfu um arðgreiðslur til Orkuveitu Reykjavíkur þar til unnið hafi verið úr bráðavanda fyrirtækisins. Í ársreikningi fyrir árið 2009 kemur fram að stjórn Orkuveitunnar leggur til að OR greiði 800 milljónir króna í arð til eigenda móðurfyrirtækisins á árinu 2010 vegna rekstrar á árinu 2009.
Í greinargerð með tillögu Besta flokksins og Samfylkingarinnar segir:
„Borgarráð telur að alla jafna sé eðlilegt að gera kröfur um arð af eignum borgarinnar, enda hefur það verið gert frá stofnun OR óháð stöðu fyrirtækisins. Síðustu tvö ár samþykkti borgarstjórn að lækka þessar greiðslur um helming og við núverandi aðstæður (OR) er talin ástæða til að ganga lengra og fella þær alveg niður tímabundið.
Borgarráð felur borgarstjóra að leggja fram tillögu á væntanlegum eigendafundi OR þar sem fallið verði frá kröfu um arðgreiðslur þar til unnið hefur verið úr bráðavanda fyrirtækisins. Jafnframt verði unnið að langtímastefnu um arðgreiðslu og ábyrgðargjöld OR í eigendanefnd sem nú er að störfum.”