Gagnrýna fullyrðingar þingmannanefndar

Þingmannanefndin fjallar um rannsóknarskýrslu Alþingis..
Þingmannanefndin fjallar um rannsóknarskýrslu Alþingis.. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Stjórn félags löggiltra endurskoðenda (FLE) gagnrýnir fullyrðingar sem fram koma í skýrslu þingmannanefndarinnar þar sem fjallað er um störf endurskoðenda. Þar sé meðal annars fullyrt að vinnu endurskoðenda fjármálafyrirtækjanna hafi verið verulega ábótavant. Stjórn FLE telur það hvorki faglegt né viðeigandi af þingmannanefndinni að viðhafa slíkar fullyrðingar.

Yfirlýsing frá FLE

„Í nýútkominni skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um hrunið og afleiðingar þess, er rætt um störf endurskoðenda. Þar er m.a. fullyrt að vinnu endurskoðenda fjármálafyrirtækjanna hafi verið verulega ábótavant, að endurskoðendur hafi brugðist skyldu sinni og að þeir beri mikla ábyrgð á að slæmir viðskiptahættir bankanna og vanvirðing við lög og reglur hafi fengið að viðgangast. Stjórn FLE telur það hvorki faglegt né viðeigandi af þingmannanefndinni að viðhafa slíkar fullyrðingar án þess að fyrir liggi niðurstaða úr rannsókn á störfum endurskoðenda hinna föllnu banka.

Stjórn FLE telur eðlilegt að opinberir aðilar rannsaki þátt endurskoðenda í því efnahagshruni sem varð á seinni hluta ársins 2008 ef umræðan á að vera á málefnalegum forsendum. Tilvist endurskoðenda sem stéttar byggist á því að notendur reikningsskila geti treyst því að þeir endurskoðendur sem árita reikningsskil tiltekinna félaga séu óháðir stjórnendum viðkomandi félaga, að þeir hafi unnið verk sitt af kostgæfni og samviskusemi og fylgt ákvæðum laga um endurskoðendur og öðrum reglum sem gilda um störf þeirra. Án trausts er áritun endurskoðenda lítils virði. Þess vegna er mikilvægt að fram fari rannsókn opinberra aðila á því hvort endurskoðendur hinna föllnu fjármálafyrirtækja hafi sinnt starfi sínu af kostgæfni og samviskusemi og farið að þeim lögum og endurskoðunarstöðlum sem gilda um störf þeirra. Áður en slík rannsókn hefur farið fram er ekki hægt að taka afstöðu til þess hvort þessir endurskoðendur hafi brugðist skyldum sínum.

Stjórn FLE telur mikilvægt að setja endurskoðun fjármálafyrirtækjanna og annarra fyrirtækja í samhengi við alþjóðlegu fjármálakreppuna sem leiddi til verulegs verðmætataps. Hafa verður í huga að hvorki endurskoðendur né aðrir gátu séð fyrir það allsherjar fjármálahrun sem varð hér á landi og þeir höfðu engin tæki til að koma í veg fyrir það.

Þá er í skýrslu þingmannanefndar fullyrt að endurskoðendur hafi ekki rætt orsakir og afleiðingar hrunsins í sínum ranni.  Stjórn FLE harmar að nefndin skuli ekki hafa leitað upplýsinga hjá FLE áður en slíkir dómar voru felldir. Stjórn FLE telur mikilvægt að umræða um störf endurskoðenda sé á málefnalegum grunni og lýsir sig reiðubúna til að taka þátt í henni á þeim forsendum. Stjórn FLE fagnar hins vegar tillögum þingmannanefndarinnar um að viðskiptanefnd Alþingis verði falið að hafa forgöngu um endurskoðun á lögum nr. 79/2008 um endurskoðendur

Stjórn FLE vill vekja á því athygli að miklar breytingar hafa orðið á umhverfi endurskoðenda síðan haustið 2008. Hinn 1. janúar 2009 tóku gildi ný lög um endurskoðendur þar sem innleidd eru ákvæði 8. tilskipunar Evrópusambandsins sem snúa að endurskoðun. Með þeim lögum varð mikil breyting á starfsumhverfi endurskoðenda, m.a. með skilgreindu hlutverki Endurskoðendaráðs sem fer með eftirlit með endurskoðendum, þar með talið gæðaeftirlit, ákvæðum um endurskoðunarnefndir stærri fyrirtækja, setningu siðareglna fyrir endurskoðendur, tilvísun til alþjóðlegra endurskoðunarstaðla ofl. o.fl.

Sömuleiðis hefur mikil fagleg umræða farið fram meðal endurskoðenda, bæði hér heima og erlendis, um orsakir og afleiðingar hrunsins.  Í apríl sl. skipaði stjórn FLE starfshóp sem ætlað er að draga fram það hvað endurskoðendur geti lært af því sem miður fór, innleiðingu breytinga skv. nýjum lögum og hvort ástæða sé til að breyta því regluverki sem endurskoðendur starfa eftir. Félag löggiltra endurskoðenda stóð fyrir málþingi í maí sl. um hrunið og rannsóknarskýrslu Alþingis en þar fóru fram opinskáar umræður um þátt endurskoðenda í hruninu. Ennfremur var fjallað um þetta efni á aðalfundi Norræna endurskoðendasambandsins (NRF) sem haldinn var hér á landi í ágúst s.l. Á afmælisráðstefnu félagsins 24. september n.k. verður fjallað um fjármálahrunið og endurskoðendur og eins er ætlunin að fjalla um þetta efni á haustráðstefnu félagsins í nóvember nk."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert