Viðskiptablaðið fullyrðir í dag, að Bretar og Hollendingar hafi boðið íslenskum stjórnvöldum að leggja fram nýtt tilboð um lausn Icesave-deilunnar sem sé mun hagstæðara fyrir Íslendinga en síðasta tilboð landanna.
Sjónvarpið sagði í gærkvöldi, að talsmaður fjármálaráðuneytisins hafi vísað þessari frétt á bug í gærkvöldi. Samræður væru enn í gangi á milli þjóðanna en engin slík beiðni hafi komið fram.
Viðskiptablaðið segir, tilboðinu muni fylgja á bilinu 30 til 50 milljarða króna
tilkostnaður fyrir ríkissjóð að viðbættu lokauppgjöri vegna vaxtakostnaðar og eftirstöðva höfuðstóls. Í síðasta tilboði landanna, sem var kallað
„loka- og endanlegt tilboð“ var gert ráð fyrir 110 milljarða króna eingreiðslu frá Íslendingum.
Blaðið segir að fulltrúar landanna tveggja hafi komið þeim boðum til íslenskra stjórnvalda, að verði slíkt tilboð lagt fram muni þau
samþykkja það, svo framarlega sem allir stjórnmálaflokkar á Alþingi séu því samþykkir.
Þegar mbl.is spurðist fyrir um hvort eitthvað nýtt væri að frétta í Icesave-viðræðunum hjá talsmanni fjármálaráðuneytisins, Rósu Björk Brynjólfsdóttur, í gærmorgun fengust þau svör að svo væri ekki.