Þingmenn Hreyfingarinnar vara í yfirlýsingu við hugmyndum efnahags- og viðskiptaráðherra um lagafrumvarp sem felur í sér yfirfærslu niðurstöðu Hæstaréttar á öll gengistryggð lán einstaklinga og skora á sjálfstætt Alþingi að taka stöðu með heimilum landsins.
„Þá lýsa þingmenn Hreyfingarinnar yfir stuðningi við málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna í kjölfar dómsins.
Niðurstaða Hæstaréttar og viðbrögð framkvæmdavaldsins við henni verða ekki túlkuð á annan veg en að lántakendur bæði gengis- og verðtryggðra lána verði þvingaðir til að bera að fullu það tjón sem hlotist hefur af völdum gengishruns krónunnar og því óðaverðbólguskoti sem fylgi í kjölfarið. Forsendubrestur er uppi í umræddum samningum og hefur hæstiréttur réttilega verið gagnrýndur fyrir að taka ekki á þeim forsendubresti. Að sama skapi þykir ólíklegt að nýfallinn dómur standist neytendaverndartilskipun ESB sem lögfest er á Íslandi.
Samþykki Alþingi það frumvarp sem ráðherra kynnti til sögunnar á blaðamannafundi þann 16. september 2010 óbreytt, útlokar Alþingi jafnframt leiðréttingu verðtryggðra lána. Sú skjaldborg um heimilin sem ráðamönnum er tíðrætt um verður ekki reist nema að stigið verið skrefinu lengra og höfuðstóll lána verði varanlega lækkaður með almennum hætti. Ríkisstjórnin verður að bregðast við niðurstöðu hæstaréttar með öðrum hætti en boðað hefur verið og gæta að almannahag, ellegar þarf hún að víkja."