Kynna rannsóknir á ofbeldi

Rannsóknin beinist að ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum.
Rannsóknin beinist að ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Fræðimennirnir Guðrún H. Sederholm og Ingólfur V. Gíslason munu síðar í dag kynna nýjar rannsóknir á ofbeldi karla gegn konum. Önnur rannsóknin beindist að heilbrigðisþjónustunni en hin rannsóknin fjallar um þjónustu félagasamtaka sem aðstoða konur sem beittar hafa verið ofbeldi í nánum samböndum.

Kynningin er ætluð fjölmiðlum og áhugafólki en hún fer fram í Iðnó klukkan 13.15 til 14.00 í dag og er yfirskriftin ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum.

Ingólfur er dósent við Háskóla Íslands en í rannsókn hans, sem unnin var fyrir félags- og tryggingamálaráðuneytið, eru meginniðurstöðurnar eftirfarandi:

1) Ljóst er að skráningar í heilbrigðiskerfinu geta ekki verið grundvöllur að mati á tíðni heimilisofbeldis eða hvort tilfellum fer fækkandi eða fjölgandi.

2) Ekki eru neinar fastmótaðar leiðir varðandi það hvernig tekið er á þeim tilfellum þar sem kona skýrir frá ofbeldi.

3) Almennt var ósk um meiri fræðslu á sviðinu, hver séu helstu einkenni, hvernig eigi að spyrja og hvað eigi að gera ef upp kemur ofbeldisbeiting. Sú fræðsla þyrfti bæði að vera þáttur í grunnnámi heilbrigðisstarfsfólks og einnig yrði boðin endurmenntun.

4) Oft var nefnt að mikilvægt væri að til staðar væri miðstöð sem gæti komið málum tengdum ofbeldi í réttan farveg.

Í rannsókn Guðrúnar Helgu, sem er félagsráðgjafi, var rætt við þrettán fulltrúa frá ellefu félagasamtökum sem annars vegar hafa að meginmarkmiði að veita aðstoð konum sem beittar hafa verið ofbeldi í nánum samböndum og hins vegar fulltrúa félagasamtaka sem stundum veita aðstoð konum sem beittar hafa verið ofbeldi í nánum samböndum.

Eru meginniðurstöðurnar eftirfarandi:

1. Þjónusta er mest á höfuðborgarsvæðinu. Kvennaathvarfið og Kvennaráðgjöfin eru í Reykjavík.

2. Þjónustuþörfin er fyrst og fremst í kringum aðstæður kvennanna. Um helmingur kvenna sem dvaldi í Kvennaathvarfinu fór aftur heim í óbreyttar aðstæður þegar dvöl þar lauk.

3. Fatlaðar, aldraðar og erlendar konur eru afskiptar hvað þjónustu varðar og sérstaða erlendra kvenna er mikil. Aðgengismál fyrir fatlaðar konur er vandamál og lítið er vitað um aðstæður aldraðra kvenna. Sérstaða erlendra kvenna er mikil og mest hjá konum utan EES sem þurfa að sýna fram á trygga framfærslu til að fá dvalarleyfi á Íslandi auk þess að hafa takmarkað aðgengi að fræðslu um samfélagið.

4. Konur leita ýmist sjálfar eftir aðstoð eða koma í fylgd annarra. Allur gangur virðist vera á því hvernig konur leita eftir aðstoð. Margar koma sjálfar en aðrar í fylgd vinkvenna eða fagaðila.

5. Takmörkuð þjónusta er í boði. Aðeins eitt kvennaathvarf er á landinu og það er í Reykjavík. Kvennaráðgjöfin er í Reykjavík. Þjónusta annarra er í uppnámi vegna takmarkaðs fjármagns.

6. Túlkaþjónustu er verulega ábótavant. Allir viðmælendur tóku fram að túlkaþjónustu væri verulega ábótavant og oft væri hún ekki í boði.

7. Viðhorf fagfólks skiptir verulegu máli. Þegar fagfólk er upplýst og vakandi fyrir einkennum ofbeldis þá verður ofbeldið sýnilegra. Vandaðri læknisvottorð skila gleggri sýn á ofbeldið.

8. Fræðslu um ofbeldi gegn konum í nánum samböndum er ábótavant. Fjármagnsskortur félagasamtaka er meginhindrun þess að ekki er hægt að bjóða uppá meiri fræðslu um ofbeldi í nánum samböndum.

9. Hugað er sérstaklega að stöðu barna. Yfirleitt er spurt sérstaklega um stöðu barna á heimilum þar sem ofbeldi kemur við sögu í nánum samböndum og tilkynningarskylda til barnaverndaryfirvalda er alltaf virt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert