Allar greiðslur frá Tryggingastofnun eru tekjutengdar. Við útreikning á lífeyri og tengdum bótum hafa allar skattskyldar tekjur áhrif svo sem atvinnutekjur, lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur.
Vegna þó nokkurrar umræðu í fjölmiðlum um bankainnistæður lífeyrisþega, vill Tryggingastofnun koma þessu á framfærði.
„Til fjármagnstekna teljast m.a. vextir og verðbætur af bankainnistæðum, arður af hlutabréfum, söluhagnaður og leigutekjur. Fjármagnstekjur eru ávallt sameign hjóna og frítekjumark elli- og örorkulífeyrisþega er 8.220 kr. á mánuði eða 98.640 kr. á ári fyrir hvern einstakling.
Mikilvægt er að hafa í huga að höfuðstóllinn, þ.e. bankainnistæðan sjálf eða spariféð hefur ekki áhrif á greiðslur frá Tryggingastofnun, aftur á móti hafa fjármagnstekjur eða vextir sem myndast af innistæðunni áhrif."