Vegna tæknimistaka voru nýverið sendar út kröfur vegna myntsamninga SP-Fjármögnunar en ekki skv. endurútreikningi. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að þetta hafi verið lagfært. Allar kröfur vegna myntsamninga eigi að vera farnar úr heimabönkum viðskiptavina SP-Fjármögnunar.
„Þetta voru smá mistök sem ollu því að þetta fór út. Einhver forritunarvilla og það er búið að leiðrétta þetta,“ segir Kjartan Georg Gunnarsson, framkvæmdastjóri SP-Fjármögnunar, í samtali við mbl.is.
Fyrsta áfanga endurútreiknings gengistryggðra bílalána og kaupleigusamninga lauk fyrr í þessum mánuði.
Segir í tilkynningu á vef fyrirtækisins að í fyrsta áfanga séu virkir samningar þar sem einn og sami skuldari hafi verið frá útgáfudegi samnings.
Þann 7. október voru póstlagðir endurútreikningar vegna tæplega 7.000 samninga.
Seðlar vegna næsta áfanga verða sendir út á næstunni.