Kostnaður við þjóðfundinn, sem haldinn var í Laugardalshöll á laugardag, var 91,7 milljónir króna. Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi að þetta hefði verið upplýst á fundi allsherjarnefndar þingsins í gær.
Sagði Sigurður Kári, að hann væri ekki að gagnrýna þá sem sóttu fundinn og störfuðu þar.
„En ég hafði eiginlega ekki hugmyndaflug til að ímynda mér, að einn fundur, sem stendur í einn dag, gæti kostað íslenska skattgreiðendur tæpar 100 milljónir króna. Maður hlýtur að velta því fyrir sér, hvort þeir sem að honum standa séu ekki komnir framúr sér... í ljósi þess niðurskurðar sem verið er að grípa til á öðrum sviðum," sagði Sigurður Kári.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að þjóðfundurinn hefði verið mikið heillaskref í þágu þjóðarinnar. Rétt væri, að 92 milljónir væri há upphæð á krepputímum en hana minnti ekki betur en að hugmyndin að þjóðfundinum hafi komið frá Sjálfstæðisflokknum.
Sagðist Þórunn telja að hugmyndin væri alveg 92 milljóna króna virði og því vildi hún þakka Sjálfstæðisflokknum fyrir að beita sér fyrir því að fundurinn væri haldinn.