Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, gagnrýnir harðlega aðgerðirnar sem kynntar voru í morgun vegna skuldavanda heimila. Þór segir að þarna sé verið að félagsmálavæða flest öll skuldug heimili landsins.
„Mér sýnist þetta vera gamaldags „Jóhönnu félagsmálaráðherraaðferð“ við að félagsmálavæða flest öll skuldug heimili á landinu,“ segir Þór. „Það er ekkert verið að gera í skuldamálum heimilanna annað en að gera þau að einhverjum bótaþegum. Það er alveg brjálæðislegt að fara með allt þjóðfélagið inn í þetta. Þetta býr til mikið af samtengingum. Það má líkja þessu við spilaborg. Ef einn kubbur hrynur þá hrynja allir,“ segir Þór
Hann bendir á að afleiðingarnar geti orðið mjög alvarlegar ef búið sé að flækja tugi þúsunda heimila inn í eitthvað bótakerfi. Lánin séu verðtryggð og ef krónan fellur og verðbólgan eykst aukist skuldir heimilanna. „Þá verður þetta hringavitleysa,“ segir hann. Áhættan fyrir ríkið og samfélagið í heild sé gríðarleg.
Ein aðgerðanna er að lántakendum í greiðsluvanda með yfirveðsettar eignir býðst að fá eftirstöðvar skulda færðar niður að 110% af verðmæti fasteigna. Þór bendir á að fasteignamat lækkar um 10% um áramótin og á næsta ári muni það örugglega lækka um 10% til viðbótar. „Þetta 110% þak er þá komið upp í 130% innan skamms.“