„Þetta er stór stund," sagði Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka Lífeyrissjóða þegar skrifað var undir samkomulag um aðgerðir vegna skuldavanda.
Hann sagði, að sú almenna leið, sem samið hefur verið um aðlögun íbúðaskulda að verðmæti veðsettrar eignar og greiðslugetu, muni ekki leiða til þess, að færa þurfi niður réttindi sjóðsfélaga. Kostnaður sjóðanna vegna aðgerðanna er áætlaður um 10-15 milljarðar króna. Tryggingafræðileg áhrif á stöðu sjóðanna verða um 0,5-0,6% af heildareignum sjóðanna.
Arnar sagði lög mjög skýr um það, að lífeyrissjóðir megi ekki fella niður veðskuldir. Hins vegar hefði það ástand, sem ríkir í samfélaginu, án efa leitt til þess að sjóðirnir hefðu þurft að færa niður skuldir að óbreyttu.
Sagði Arnar, að gengið hefði verið úr skugga um það hjá Fjármálaeftirlitinu, að þessar aðgerðir væru innan ramma laga um lífeyrissjóðanna.
Fram kom hjá Arnari að vanskil á sjóðfélagalánum væru nú um 4,5%.