Mennirnir, sem grunaðir eru um úraránið í verslun Leonard í Kringlunni á þriðjudag, eru enn í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ránsfengurinn hefur enn komið í leitirnar, úr að verðmæti um fimm milljóna króna.
Yfirheyrslur hafa staðið yfir yfir mönnunum, sem eru á tvítugs- og þrítugsaldri, frá því að þeir voru handteknir í gær og fyrrinótt. Það skýrist í dag hvort mönnunum verði sleppt eða farið verði fram á kröfu um gæsluvarðhald yfir þeim. Hægt er að halda þeim í allt að 36 klukkustundir án þess að fara fram á gæsluvarðhald.
Eins og fram hefur komið á mbl.is náðust ræningjarnir á mynd þar sem þeir komu askvaðandi inn í verslun Leonard, vopnaðir kúbeini sem þeir notuðu við að brjóta upp skáp. Þaðan hirtu þeir verðmæt úr og hlupu út úr versluninni. Öryggisverðir misstu af þeim í bílakjallara Kringlunnar en ræningjarnir náðust vel á mynd í versluninni.