Nítján umhverfisverndarsamtök hvöttu í gær bandarísk stjórnvöld til að beita Íslendinga viðskiptaþvingunum vegna hvalveiða. Vilja samtökin, að virkjuð verði bandarísk lög, svonefnt Pelly-ákvæði, sem kveður á um viðskiptaþvinganir gagnvart löndum sem grafa undan alþjóðlegum friðunarsáttmálum.
Samtökin Whale and Dolphin Conservation Society (WDCS) sendu viðskiptaráðherra og innanríkisráðherra áskorunina fyrir hönd regnhlífarsamtaka hvala- og dýraverndarsamtaka. Telja WDCS að með hvalveiðum grafi Ísland undan virkni Alþjóðahvalveiðiráðsins og einnig CITES sáttmálans, sem fjallar um viðskipti milli landa með afurðir dýra og plantna í útrýmingarhættu.
Bandarísk stjórnvöld staðfestu árið 2004, að vísindahvalveiðar Íslendinga brytu gegn Pelly-ákvæðinu en George W. Bush, þáverandi Bandaríkjaforseti, ákvað að beita Íslendinga ekki efnahagslegum þvingunum.
Í tilkynningu frá WDCS segir, að stjórn Baracks Obama, núverandi forseta, sé að skoða málið og meta hvort ástæða sé til að virkja umrædd lög.