Ritskoðun ekki leidd í lög

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Eggert

Katrín Jakobsdóttir, mennta og menningarmálaráðherra, segir ekki verið að leiða ritskoðun í lög með nýju fjölmiðlafrumvarpi. Blaðamannafélag Íslands hefur gert athugasemd við ákvæði frumvarpsins er gera ráð fyrir því að sérstök úrskurðarnefnd fjalli um möguleg brot á friðhelgi einkalífs í fjölmiðlum.

Katrín sagði í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins að hún teldi ekki verið að innleiða ritskoðun sérstaklega, verið væri að innleiða tilskipun sem flest Evrópuríki hefðu þegar tekið upp.

Frumvarpið er gert að umtalsefni á vef Blaðamannafélagsins, og það sett í samhengi við formennsku Ungverjalands í Ráðherraráði Evrópusambandsins. Nýlega hafi ungverska þingið samþykkt lög um fjölmiðla sem Evrópusambandið sjálft segir stangast á við tjáningarfrelsi. Ákvæði íslensku laganna um lýðræðislegar skyldur fjölmiðla sé líkt því sem finna má í ungversku lögunum.

„26. gr. frumvarpsins er fráleit og hlýtur að varða við ákvæði stjórnarskrárinnar um frelsi til tjáningar. Er það ætlunin með greininni að fjölmiðlanefnd hafi úrskurðarvald um það hvenær fjölmiðlar fari út fyrir mörk þess að fjalla um friðhelgi einkalífs eða hvenær þeir hvetji til refsiverðrar háttsemi svo dæmi séu tekin?“ segir í umsögn Blaðamannafélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert