Þingflokksfundi VG er lokið. Niðurstaðan var sú að þingflokkurinn stæði á bakvið ríkisstjórnina og sagði Árni Þór Sigurðsson þingflokksformaður við Sjónvarpið að meirihlutinn á þingi væri tryggður. Ekki mun þó hafa náðst niðurstaða í innanflokksdeilum þingmanna.
Fundurinn hófst á hádegi í en hlé var gert um miðjan dag á meðan útför föður Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, þingmanns VG, fór fram. Fundahöld hófust að nýju kl. 17 síðdegis.
Á fundinum var farið yfir mál eins og ESB, auðlindamál, efnahagsáætlun AGS og sjávarútvegsmál. Sagði Árni Þór við Sjónvarpið að farið hefði verið yfir skoðanaágreining þingmanna en vildi ekki lýsa afstöðu einstakra þingmanna. Taldi Árni Þór að meirihlutinn væri tryggur og þingflokkurinn myndi standa á bak við ríkisstjórnina hér eftir sem hingað til.
Fram kom í frétt Sjónvarpsins að djúpstæður ágreiningur væri innan þingflokksins en ólíklegt talið að hann myndi klofna þó að afgerandi niðurstaða fengist ekki á þingflokksfundinum í dag.