Fann Liverpool-lag frá 1907

Leon Bjartur í fangi Arngríms sem er heitur stuðningsmaður Liverpool …
Leon Bjartur í fangi Arngríms sem er heitur stuðningsmaður Liverpool og skráir sögu félagsins nánast daglega gegnum vefinn lfchistory.net. Grúsk á bókasafni í Liverpool varð til þess að gamalt lag frá 1907 fannst þar. mbl.is/Kristinn

„Einn aðdáandi með arnarauga hefur grafið upp lag sem gæti verið fyrsta stuðningsmannalag sögunnar, samið fyrir meira en 100 árum.“

Eitthvað á þessa leið hefst frétt á vefsíðu enska stórliðsins Liverpool í vikunni, þar sem greint er frá fundi á laginu Hurrah for the Reds, eða Húrra fyrir Rauða hernum, sem samið var árið 1907. Fréttin hefur vakið nokkra athygli í Liverpool en það var Íslendingurinn Arngrímur Baldursson sem fann lagið á bókasafni þar í borg á síðasta ári. Þar var hann sem ritstjóri vefsíðunnar lfchistory.net að skoða gömul eintök staðarblaðsins Liverpool Echo. Síðunni er stýrt héðan frá Íslandi og vefstjóri er félagi Arngríms, Guðmundur Magnússon. Hún fór fyrst í loftið árið 2003 sem áhugamál þeirra félaga en er nú orðin að opinberri tölfræði félagsins samkvæmt samningi sem þeir gerðu við félagið fyrir tveimur árum.

Spurður nánar út í lagið sagði Arngrímur að hörðustu stuðningsmenn og sérfræðingar Liverpool hefðu ekki vitað um neina sönghefð svona snemma, eða 15 árum eftir stofnun félagsins árið 1892. Hið þekkta lag, You'll never walk alone, hefur verið opinbert stuðningsmannalag félagsins frá árinu 1963.

Vakið mikla athygli

„Þetta kom mönnum í opna skjöldu,“ segir Arngrímur, sem fékk síðan tónlistarmann í Liverpool, Paul Wilkes, til að taka lagið upp í hljóðveri. Fylgdi sú upptaka með á opinberum vef Liverpool í vikunni og hefur vakið mikla athygli meðal stjórnenda og aðdáenda félagsins.

„Ég hef verið pantaður í viðtal á sjónvarpsstöð Liverpool næst þegar ég fer út,“ segir hann en nú þegar er farið að kyrja gamla lagið á krám í nágrenni Anfield, m.a. á þeirri helstu meðal stuðningsmanna félagsins, The Park. Arngrímur segir að kynnirinn á Anfield ætli að spila lagið reglulega á vellinum og vonar að það hljómi hátt frá Kop-stúkunni frægu.

Lagið má heyra hér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert