Fréttaskýring: Enn ófriðarblikur hjá VG

Þingmenn VG á fundi í gær.
Þingmenn VG á fundi í gær.

Hinn djúpstæði ágreiningur í þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs virðist bara hafa skýrst og orðið djúpstæðari í kjölfar þess að þau Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir gerðu í fyrrakvöld opinbera þá greinargerð sem þau lögðu fram á þingflokksfundi sl. miðvikudag, sem svar þeirra þremenninga við gagnrýni starfandi þingflokksformanns, Árna Þórs Sigurðssonar, og fleiri á afstöðu þeirra við hjásetu þegar fjárlagafrumvarp Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra var afgreitt á Alþingi þann 16. desember sl.

Ýmsir úr grasrót Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, ekki síst af landsbyggðinni, virðast ætla að þjappa sér að baki þeim þingmönnum í VG sem gjarnan hafa verið nefndir „órólega deildin“ en höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins kallaði nú um helgina „ærlegu deildina“, þeim Atla Gíslasyni, Ásmundi Einari Daðasyni og Lilju Mósesdóttur. Eins og kunnugt er eru ráðherrarnir Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson einnig í þeirri deild sem þremenningarnir eru kenndir við, svo og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir þingflokksformaður, sem nú er í barneignarfríi frá þingstörfum.

Vilja afsökunarbeiðni

Samkvæmt samtölum við félaga í VG, óbreytta, bæði af höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, virðist sem ofangreindir sexmenningar eigi umtalsverðan stuðning í flokknum. Erfiðlega gekk í gær að ná sambandi við þingmenn og ráðherra VG sem komu saman til þingflokksfundar í höfuðstöðvum sínum, Aðalstræti 6, kl. 13 og funduðu til kl. 16, en þá var gert hlé til kl. 18. Fundi var þá fram haldið og lauk honum ekki fyrr en um kl. 21.30 í gærkvöldi. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var þetta afskaplega erfiður fundur þar sem hart var tekist á. Mestur tími fundarins fór í umræður og ágreining um stefnu flokksins í Evrópusambandsmálum, en einnig var mikið rætt um stefnuna í stjórnun sjávarútvegsmála, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Engin niðurstaða varð á fundinum, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, en ákveðið að halda umræðum um ágreiningsmál áfram í næstu viku.

Eins og kunnugt er settu þau Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir m.a. fram þá kröfu í greinargerð til þingflokksins að Árni Þór Sigurðsson, starfandi formaður þingflokksins, bæðist opinberlega afsökunar á ummælum sínum, sem fólu að þeirra mati í sér fordæmingu á málflutningi Lilju Mósesdóttur, vegna fjárlagagerðarinnar, þar sem þau þrjú sátu hjá við atkvæðagreiðslu. Þau segja í greinargerð sinni að tillögur þeirra hafi ekki fengið málefnalega umfjöllun í þingflokki VG og þau sökuðu flokksforystuna um óbilgirni og kölluðu ríkisstjórnina „svokallaða velferðarstjórn“. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG, sagði í samtali við fjölmiðla, þegar fundarhlé var gert síðdegis í gær: „Veistu það, ég bara stend ekki í þessu strákar mínir. Við erum bara að funda hérna... Við erum alltaf að ræða málin.“

Hann bætti því við að sjálfsagt væri hægt að biðja um afsakanir á báða bóga, aðspurður um kröfu þremenninganna um að starfandi þingflokksformaður bæðist afsökunar á ummælum sínum um málflutning Lilju Mósesdóttur.

Formaður VG sagði jafnframt að krafa um afsökunarbeiðni hefði ekki verið sett fram á þingflokksfundinum sjálfum. Hann liti svo á að þremenningarnir væru enn stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar.

Um hvað er tekist á?
» Þeir sem rætt var við í gær telja margir að ágreiningurinn innan þingflokks VG sé orðinn svo djúpstæður að hann muni leiða til klofnings.
» Fullyrt er að annars vegar takist á þau öfl innan VG sem vilja standa vörð um þau grunngildi sem VG hafi að leiðarljósi í stefnuskrá sinni, en hins vegar standi meirihluti þingflokks VG fyrir því að standa við þann stjórnarsáttmála sem ríkisstjórnarsamstarfið byggist á. Í slíku samstarfi hljóti að felast málamiðlun.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert