Fréttaskýring: Óttast ekki að allt verði í rusli í Reykjavíkurborg

Sorphirða er nú á 10 daga fresti í Reykjavík í stað vikulega fyrir áramót og frá og með 1. apríl nk. verða ruslatunnur aðeins sóttar 15 metra frá sorpbíl nema greiddar verði árlega 4.800 kr. fyrir hverja tunnu lengra frá. Guðmundur B. Friðriksson, skrifstofustjóri neyslu- og úrgangsmála Reykjavíkurborgar, segir að breytingin hafi kallað á þó nokkur viðbrögð borgarbúa, þar sem upplýsingaleit hafi verið fyrirferðarmest, en hann óttist ekki að allt verði í rusli í borginni.

Skrefagjald á að skila sínu

Sorphirðan í Reykjavík kostaði um 717 milljónir króna á nýliðnu ári en áætlað er að hún kosti um 674 milljónir á yfirstandandi ári. Auk þess er gert ráð fyrir 73 milljóna kr. auknum tekjum vegna skrefagjaldsins, þ.e. sorphirðu þar sem ílátin eru í 15 m fjarlægð eða meira frá sorpbíl. Breytingin á því að skila samtals um 115 til 116 millj. kr., að sögn Guðmundar.

Guðmundur bendir á að sorpið hafi minnkað um 20% á undanförnum þremur árum og með því að nýta tunnurnar betur og tæma þær á 10 daga fresti sparist um 42 milljónir kr. á ári. Hann segir að um 50% tunna í borginni séu í a.m.k. 15 m fjarlægð frá götu og miðað við skrefagjald af 40% íláta í borginni verði tekjurnar um 73 milljónir á ári.

Engar uppsagnir

Gert er ráð fyrir að um helmingur vinnutíma sorphirðumanna fari í það að ganga inn á lóðir til þess að ná í sorpið. Guðmundur segir að launakostnaður sé stærsti kostnaðarliður sorphirðunnar en auk þess kosti sorphirða bílanna sitt sem og móttökugjöld fyrir úrganginn. Mönnum verði ekki sagt upp en ekki verði ráðið í stöður sem losni.

Rúmlega 50 manns vinna á níu sorphirðubílum, sem hirða blandað sorp, og einum bíl, sem tekur pappírinn í bláu tunnunum. Borginni er skipt í sjö hverfi og eru allir bílarnir í sama hverfi á sama degi. Guðmundur bendir á að á vef Reykjavíkurborgar sé dagatal þar sem sjá megi hvar sorpið sé hirt hverju sinni.

Guðmundur segir að einn hvatinn fyrir breytingunni hafi verið ákvörðun íbúa að banna akstur við eignir sínar. Íbúar í raðhúsum í Fossvogi sem eiga innkeyrslu meðfram húsunum hafi t.d. bannað akstur ruslabílanna vegna þess að slitlag hafði verið endurnýjað og þungir bílar gætu eyðilagt það. Fyrir vikið hafi sorphirðumenn þurft að ganga allt að 120 m í stað 3-4 metra til að ná í eina tunnu.

„Sovéskar kreppuleiðir“

Elísabet Gísladóttir, formaður íbúasamtaka Grafarvogs, segir að skattheimtugleði Reykjavíkurborgar ríði ekki við einteyming og nýtt sorphirðugjald sé eins og olía á eld. Íbúasamtökin hafi reyndar ekki enn tekið málið fyrir á fundi en hún heyri á fólki að því finnist mikið óréttlæti fólgið í nýja gjaldinu.

Að sögn Elísabetar er forgangsröðunin röng. Grafarvogur sé 20 þúsund manna hverfi með tveimur sorphirðustöðvum en íbúarnir þurfi að aka út úr því til að komast í næstu gámastöð. Hún spyr hvort eðlilegt sé að geyma rusl í tunnum í 10 daga með mengun og sóðaskap í huga og hvort ekki væri nær að stuðla að meiri flokkun sorps með sparnað í huga og setja upp metanstöð á hverri sorphreinsistöð. „Þetta eru allt sovéskar kreppuleiðir,“ segir hún um framgang borgarinnar. „Hún hækkar gjöld þegar fólk er í raun og veru að sligast undan sköttum. Það er ekki á það bætandi.“ Elísabet bætir við að skattar séu aldrei aflagðir og því sitji íbúar uppi með stöðugt fleiri skatta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert