Fjörugur fyrsti dagur við aðalmeðferð

Úr héraðsdómi í dag.
Úr héraðsdómi í dag. Árni Sæberg

Fyrsta degi – af þremur – aðalmeðferðar í máli ákæruvaldsins gegn níu einstaklingum lauk síðdegis í dag. Þinghaldi verður haldið áfram í fyrramálið og gert ráð fyrir dómþingi fram eftir degi . Fyrsti dagurinn var fjörugur og útlit fyrir að morgundagurinn verði enn fjörugri.

Í dag var tekin skýrsla af sakborningunum níu fyrir hádegið og þingvörðum, yfirmanni þingvarða og skrifstofustjóra Alþingis eftir hádegið. Eftir hádegið bar á hrópum og köllum frá áhorfendum í sal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur og verður að teljast líklegt að meira verði um læti á morgun, en þá verður tekin skýrsla af lögreglumönnum sem komu á vettvang.

Ástæða þess að telja má líklegt að áhorfendur, jafnvel sakborningar, muni láta skoðun sína í ljós er framburður sakborninga í dag. Flestir þeirra voru handteknir umræddan dag, 8. desember 2008, sumir hverjir í Alþingishúsinu. Báru þeir við harðræði lögreglu en ólíklegt verður að teljast að lögreglumenn taki undir þann framburð.

Ekki staðið við loforð

Fyrir það fyrsta má nefna framburð Ragnheiðar Esther Briem, en fleiri sakborningar staðfestu hann. Ragnheiður Esther sagði að á meðan fólkið var inni í Alþingishúsinu hefði lögregla lofað að engir eftirmálar yrðu ef fólkið myndi rýma húsið. Ekki var staðið við það og Ragnheiður handtekin á leiðinni út.

Að sama skapi er vert að líta til framburðar Kolbeins Aðalsteinssonar. Hann sagðist hafa rætt við lögreglumann inni í Alþingishúsinu og var honum þá tjáð að mótmælin væru ólögleg og hann væri að brjóta lög með því að óhlýðnast lögreglu. Kolbeinn tók hins vegar fram að hann hafði engin fyrirmæli fengið frá lögreglunni. Því væri erfitt að óhlýðnast þeim.

Kolbeinn var stuttu síðar handtekinn, færður í handjárn og látinn liggja á maganum í anddyri Alþingishússins. Sagði hann að lögreglumaður hefði haldið honum niðri með því að setja hné harkalega á mjóbakið. Þegar honum svo var skipað að standa upp hafi Kolbeinn ekki áttað sig á skipuninni. Þá hafi lögreglumaður snúið upp á höndina á honum.

Skipulagning ekki viðurkennd

Allir sögðust sakborningar telja sig hafa haft heimild til að vera inni í Alþingishúsinu, enda þingfundir opnir almenningi og ekkert sem benti til þess að þingpallar væru lokaðir – sem þeir voru ekki þennan dag. Þeir neituðu allir fyrir að hafa beitt ofbeldi en einnig að gefa upp hver tilgangur þeirra hafi verið með því að fara inn í húsið.

Lára V. Júlíusdóttir, settur saksóknari í málinu, reyndi að draga upp úr sakborningum eitthvað um að „árásin“ hafi verið skipulögð. Þeir sem svöruðu spurningum hennar neituðu því staðfastlega að einhver undirbúningur hafi átt sér stað. Þarna hafi verið um sundurleitan hóp að ræða og fráleitt að telja einhvern í forystu fyrir hann.

Lára spurði um miða sem á að hafa verið dreift tveimur dögum fyrir atburðina í þinghúsinu, en á þeim á að hafa verið rituð hvatning um að mæta í þinghúsið á þessum tiltekna tíma. Enginn sakborninga gekkst við að hafa séð slíka miða. Einnig vildi Lára fá að vita um fundarhöld áður en hópurinn gekk að þinghúsinu 8. desember. Henni varð ekkert ágengt með þá spurningu heldur, og ef sakborninga neituðu ekki að svara sögðust þeir ekkert vita af slíkum fundi.

Beit ekki en glefsaði í lögreglumann

Fullreynt var að toga upp úr sakborningum ætlaðan ásetning og skipulagningu um árás á Alþingi fyrir hádegið. Um er að ræða brot sem varðar við 100. gr. almennra hegningarlaga. Greinin hljóðar svo:  „Hver, sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar.“

Auk þess eru raunar allir sakborningar ákærðir fyrir brot gegn valdstjórninni, brot gegn almannafriði og allsherjarreglu og húsbrot.

Einn sakborninga, Andri Leó Lemarquis, er ákærður fyrir að hafa ýtt í þingvörð sem datt aftur fyrir sig og féll á miðstöðvarofn. Þingvörðurinn, María Ditat de Jesus, slasaðist töluvert og hefur enn ekki náð sér, skv. Framburði hennar fyrir dómi. Er hún með þráláta verki í öxl og baki. Andri Leó er raunar einnig ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni fyrir að hafa bitið lögreglumann í hönd og annan í öxlina.

Við aðalmeðferðina vísaði Andri Leó aðallega til upptöku úr öryggismyndavélum en þar sést að hann ýtir ekki þingverðinum, heldur er honum ýtt á Maríu sem fellur þá við. María var reyndar ekki sammála þessari túlkun, þrátt fyrir að horfa á upptökuna í dómsalnum, og bar enn við að henni hefði verið hrint.

Þegar kemur að því að bíta tvo lögreglumenn sagði Andri Leó snöggt að hann myndi ekki eftir því að hafa bitið lögreglumann í öxlina. Hann neitaði hins vegar ekki alfarið fyrir að hafa bitið hinn lögreglumanninn. Um varnarviðbrögð hafi verið að ræða því lögreglumaðurinn hafi verið að ýta honum niður stigann. Þá hafi hann glefsað, ekki bitið, í höndina á honum. „Ég var hræddur og ég endaði á því að detta í stigann með andlitið á undan mér,“ sagði Andri Leó. Hann var í kjölfarið handtekinn, og taldi sig hafa verið beittan miklu harðræði við handtökuna, þar sem hann átti erfitt með andardrátt.

Litaður framburður vitnis

Eftir hádegið var komið að þingvörðum að bera vitni. Áður en að því kom var hins vegar kallað fyrir eitt vitna verjenda, góður vinur sakborninga sem fylgst hefur náið með málinu frá upphafi. Hann var í Alþingishúsinu umræddan dag, en sagðist ekki hafa hugmynd um það hvers vegna hann var ekki handtekinn og ákærður líkt og vinir sínir. Er það í takt við framburð annarra sem höfðu ekki hugmynd um það hvers vegna þeir voru handteknir og ákærðir.

Eftir að vitnið hafði gefið skýrslu spurði Pétur Guðgeirsson, dómari málsins, hvort hann hefði ekki setið aðalmeðferðina fyrir hádegið. Vitnið játti því og benti Pétur þá á, að vitni ættu ekki að fylgjast með því sem fer fram áður en þau bera vitni. Er hætt við að dómarar málsins muni telji framburðinn því töluvert litaðan.

Töldu fólkið ógnun við Alþingi

Framburður þingvarða þennan dag var nokkuð misjafn. Þeir áttu það sameiginlegt að hafa fengið neyðarkall í talstöð sína og hlupu þá í átt að stiganum til aðstoðar. Allir voru þeir sammála um að þeir hafi upplifað atburðina sem ógnun við Alþingi, og flestir sem ógnun við sig.

Meðal annars gaf skýrslu Guðlaugur Ágústsson, deildarstjóri þingvörslu. Guðlaugur var í vaktstöð Alþingis þegar hópurinn kemur að Alþingishúsinu. Hann segist hafa séð í öryggismyndavél þegar þremur mönnum var hleypt inn í húsið, að einn þeirra tekur sig út úr hópnum og ræðst á þingvörðinn sem hleypti inn.

Í kjölfarið þrýsti hann á neyðarhnapp sem er beintengdur lögreglunni og sendir svokölluð árásarboð. Auk þess hringdi hann í lögregluna og tjáði henni að þetta væru ekki fölsk boð.  Aðspurður sagðist hann hafa talið öryggi Alþingis ógnað, enda hafi hann séð ráðist að þingverði. Hann hafi ekki með nokkru móti getað vitað hvað fólkinu gekk til.

„Fólkið argaði allan tímann“

Merkilega mikill munur var á framburði þingvarða og lögreglumanns á vakt í þinghúsinu. Svo dæmi sé tekið var um að ræða þingvörð og lögreglumanninn sem stóðu hlið við hlið í stiga inni í þinghúsinu og vörnuðu fólki uppgang.

Þegar settur saksóknari spurði þingvörðinn hvort hann hafi talið sér ógnað í starfi sagði hann nú aðallega fúkyrði sem dunið hafi yfir hann. Þá hafi fólkið verið með mikil læti, stappað niður fótum, kallað og öskrað. Hann sagði mikinn troðning hafa myndast en minntist ekkert á ofbeldi.

Lögreglumaðurinn sem stóð við hlið þingvarðarins og hjálpaði við að passa upp á að fólkið færi ekki upp stigann var hins vegar á öðru máli. „Það var sparkað í okkur, snúið upp á höndina á mér, öll tæki tekin af okkur. Fólkið ætlaði að ryðjast inn. Það var sparkað, slegið, togað og reynt að klifra yfir okkur.“ Mennirnir voru reyndar sammála með að mikil hávaði hafi verið. „Já já, fólkið argaði allan tímann.“

Þingmenn mæta á morgun

Þrátt fyrir töluverðan fjölda skýrslna sem teknar voru í dag er enn mikið eftir af aðalmeðferðinni. Henni verður framhaldið í fyrramálið og hefst að öllum líkindum á skýrslutöku yfir þeim lögreglumönnum sem á vettvang komu. Í kjölfarið verður tekin skýrsla af tveimur þingmönnum sem voru í þingsal umræddan dag. Það eru þeir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Einar K. Guðfinnsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra. Um er að ræða vitni verjenda.

Ráðgert er að aðalmeðferðinni ljúki svo á fimmtudag. Eftir það hafa dómarar fjórar vikur til að kveða upp dóm.

Löng röð myndaðist fyrir framan dómsal í dag, og var …
Löng röð myndaðist fyrir framan dómsal í dag, og var þétt setið innan dyra. mbl.is/Árni Sæberg
Hér sést einn sakborninga kýta við lögreglu þegar hún meinaði …
Hér sést einn sakborninga kýta við lögreglu þegar hún meinaði mótmælendum og stuðningsfólki sakborninga inngöngu í réttarsal við fyrirtöku málsins á síðasta ári. Jakob Fannar Sigurðsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert