Starfshættir grunnskóla skuli mótast af kristinni arfleifð

Árni Johnsen á Alþingi.
Árni Johnsen á Alþingi. mbl.is/Ómar

Lögð hefur verið fram þingsályktunartillaga á Alþingi þess efnis að með hliðsjón af markmiðsgrein laga um grunnskóla þess efnis að starfshættir grunnskóla skuli m.a. mótast af kristinni arfleifð. Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar en með honum eru Ragnheiður Elín Árnadóttir, Jón Gunnarsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Bragi Sveinsson og Vigdís Hauksdóttir.

Í tillögunni segir að mikilvægt sé að opinberir skólar vandi til fræðslu um hinn kristna menningararf þjóðarinnar í þeim tilgangi að stuðlað verði að auknum skilningi á þeirri arfleifð. Þess verði gætt að mannréttindi minnihlutahópa hvað varðar trú og lífsviðhorf verði í heiðri höfð og leitast verði við að leysa ágreiningsmál sem upp kunna að koma með sátt þannig að sem flestir geti við unað.

Af greinargerðinni má lesa að frumvarpið er lagt fram vegna þeirrar umræðu sem hefur verið um tillögur sem varða samstarf kirkju og skóla og liggja fyrir mannréttindaráði Reykjavíkur. Segir í greinargerð að tillögur mannréttindaráðs séu óljósar, illa unnar og illa rökstuddar, auk þess sem þeim er ætlað að hindra ýmsa þætti í samstarfi skóla og kirkju sem tíðkast hafa um áratugaskeið. „Nægir þar að nefna kirkjuferð skólabarna á aðventu og aðstoð presta þegar nemendur eða kennarar verða fyrir áfalli. Þá er ætlunin að taka fyrir að kirkjan fái að kynna barna- og unglingastarf sitt á vettvangi skólanna til jafns við önnur æskulýðsfélög.“

Einnig er það gagnrýnt í greinargerðinni að taka á fyrir dreifingu Gídeonfélaga á Nýja testamentinu til skólabarna. „Þetta er byggt á þeim rökum að skólinn eigi ekki að vera vettvangur fyrir dreifingu trúarrita. [...] Með fullri virðingu fyrir Kóraninum, auglýsingabæklingum og öðru kynningarefni hlýtur Nýja testamentið að hafa algjöra sérstöðu hér á landi. Vissulega er Nýja testamentið trúarrit en jafnframt ein af meginstoðum og sterkustu áhrifavöldum á evrópska menningu, t.d. á sviði bókmennta, myndlistar, tónlistar o.s.frv. Íslensk menning og vestræn verður ekki skilin án þess.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert