Skapa þarf vissu um framhaldið

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, mun gefa þinginu skýrslu á morgun um …
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, mun gefa þinginu skýrslu á morgun um stöðu stjórnlagaþings. mbl.is/Ernir

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sagði í upphafi þingfundar í dag að skapa yrði einhverja vissu um framhaldið eftir að Hæstiréttur tók í gær ákvörðun um að ógilda kosningu til stjórnlagaþings.

Ásta Ragnheiður sagðist hafa fylgst með umræðunni í þjóðfélaginu um málið frá því Hæstiréttur tók ákvörðun sína í dag. Hún hefði velt því fyrir sér hvort finna megi að undirbúningi Alþingis fyrir stjórnlagaþingið og þeim lagaramma, sem settur var. Sagði Ásta Ragnheiður að fara yrði yfir það mál.

Fram kom að landskjörstjórn mun halda fund síðdegis og sjálf sagðist Ásta Ragnheiður ætla að eiga fund með formönnum þingflokka síðar í dag. Þá myndi Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, gefa þinginu skýrslu um stöðu málsins á morgun.

„Hér hafa mikil tíðindi orðið og það er skylda okkar að nálgast málið af virðingu við kjósendur, læra af því og bæta um betur ef okkur hefur orðið á," sagði Ásta Ragnheiður. Það biði síðan hinni pólitísku forustu að leggja línur um framhaldið.

Þingmenn ræddu um málið í kjölfarið. Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði Róbert Marshall, þingmann Samfylkingarinnar og formann allsherjarnefndar Alþingis, hvort frambjóðendur til stjórnlagaþings ættu rétt á skaðabótum. Róbert sagðist ekki hafa myndað sér skoðun á því. Fara yrði yfir það sem úrskeiðis fór.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, sagði reynt að gera málið tortryggilegt og krefjast afsagnar ráðherra og embættismanna en hið einfalda svar væri að endurtaka kosningarnar.  En stjórnmálaöflin þyrftu að svara því hvort þau vildu styðja hugmyndina um stjórnlagaþing og þá lýðræðisnýjung sem í því fælist.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði áhyggjuefni hve innanríkisráðherra virtist nálgast málið af mikilli léttúð og engu væri líkara en að hann væri að tala um kosningar um hundahald. Málið væri hins vegar grafalvarlegt því þetta væri í fyrsta skipti sem kosningar væru ógiltar í vestrænu lýðræðisríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert