Konur klifu Kerlingareld

Kerlingareldur.
Kerlingareldur. Berglind Aðalsteinsdóttir

Síðastliðið sumar klifu tvær ungar konur Kerlingareld, sem er tæplega 200 metra klettastál í fjallinu Kerlingu í Svarfaðardal.

Kerlingareldur var fyrst klifinn árið 1997 og síðan þá hafa innan við tíu hópar klifið leiðina. „Þetta var í fyrsta skipti sem kvennahópur kleif Kerlingareld,“ sagði Berglind Aðalsteinsdóttir, önnur kvennanna. Klifurfélagi hennar heitir Sædís Ólafsdóttir.

Leiðin er ein stórglæsilegasta fjallaklettaklifursleið landsins í stórkostlegu umhverfi Tröllaskagans með útsýni norður til Grímseyjar og suður á Jökla. 

„Fólk þarf að hafa verulega reynslu í klifri til að fara þarna upp. Þetta er ein glæsilegasta klettaklifurleið landsins, þetta er flottur berggangur sem endar uppi á tignarlegu fjalli,“ segir Berglind. „Svo er þetta óvenjulöng leið, miðað við það sem gerist hér á landi.“

Hún segir að frá bænum Melum í Svarfaðardal sé um tveggja tíma ganga upp að fjallinu. Gangan upp og niður Kerlingareld tekur að auki sex til átta klukkustundir.

Þær Berglind og Sædís eru síður en svo nýgræðingar í fjallamennsku. „Ég byrjaði sjálf í þessu árið 2006. Áður var ég mikið í útivist, sem þróaðist síðan út í svona harðsnúna fjallamennsku,“ segir Berglind.

Undirbúningurinn fór að mestu leyti fram í Stardal, sem er klettaklifursvæði í Esjunni. Berglind segir fátt hafa komið þeim á óvart þegar á hólminn var komi, þær hafi verið vel undirbúnar og veðrið hafi ekki spillt fyrir. „Það var einstaklega gott veður, það skiptir gríðarlega miklu máli.“

Dagsdaglega starfar Berglind sem læknir og Sædís er doktor í jarðfræði. Hvað skyldi nú taka við, eftir að  þessi erfiði áfangi er að baki? „Ætli við höldum ekki áfram að klifra sem víðast,“ segir Berglind.

Myndband af klifri Sædísar og Berglindar á Kerlingareld




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert