Oddný Sturludóttir, formaður menntaráðs Reykjavíkurborgar, segir ljóst að gert hafi verið ráð fyrir niðurskurði í skólakerfinu á þessu ári og því komi vart til greina að fresta hagræðingum fram á næsta ár. Hins vegar sé einnig ljóst að ekki komi til greina að ganga þannig að skólunum að það komi niður á gæðum námsins eða velferð nemenda.
„Við erum að skoða þessi mál núna og þau ættu að skýrast á allra næstu dögum,“ segir Oddný um áhrif niðurskurðarins á starfsemi grunnskólanna í haust. „Við gerðum alltaf ráð fyrir því að þurfa að skerða kennslumagnið en ef það verður niðurstaðan að t.d. list- og verkgreinakennsla verður í hættu, þá að sjálfsögðu tökum við það til endurskoðunar. Það gerist ekki á okkar vakt að við höldum ekki uppi metnaðarfullu skólastarfi,“ segir hún.
„Ef við förum ekki í kjarkmiklar breytingar verðum við í þessari stöðu í mörg ár,“ sagði Oddný í gær og nefndi sem dæmi sameiningu skóla og samnýtingu skólahúsnæðis. Hún segir nauðsynlegt að breyta ytra skipulagi til að geta staðið vörð um skólastarfið því ljóst sé að næstu ár verði líka snúin.
Spurð um bókunina sagði Oddný að vinnunni væri ekki lokið, hugmyndirnar yrðu þróaðar áfram og endanlegar tillögur lagðar fram í lok mánaðarins.
Menntasvið Reykjavíkurborgar hefur boðað foreldra grunnskólabarna til opins fundar í Ráðhúsinu kl. 17.30 fimmtudaginn 17. febrúar næstkomandi.