Hætt við vegna neyðarástands

Arnaldur Birgir Konráðsson og Ágúst Guðmundsson á æfingu.
Arnaldur Birgir Konráðsson og Ágúst Guðmundsson á æfingu.

Auðvitað er þetta gríðarlega svekkjandi, enda erum við búnir að stefna að þessu lengi og leggja mikið á okkur," segir Arnaldur Birgir Konráðsson, stofnandi Boot Camp. Birgir og félagi hans Ágúst Guðmundsson voru á leið til Túnis á laugardag til að taka þátt í eyðimerkurhlaupi, sem nú hefur verið tilkynnt að falli niður vegna ástandsins í landinu.

„Þrátt fyrir allt hefur allan tímann staðið til að halda hlaupið en ástandið hefur versnað til muna, sérstaklega síðustu tvo daga. Núna er yfir 120 þúsund flóttamenn farnir frá Líbíu til Túnis og þar er bara neyðarástand og skortur á mat, svo aðstandendur hlaupsins og ferðamálaráð Túnis treysta sér ekki til þess að standa undir þeirri öryggisgæslu sem þarf til að tryggja að þetta geti farið vel fram" segir Birgir.

Hlaupið, sem kennt er við Sahara-eyðimörkina, er 112 kílómetra langt og höfðu þeir félagar æft stíft undir það í um eitt og hálft ár. Samhliða hlaupinu ætluðu Birgir og Ágúst að safna áheitum til styrktar Mæðrastyrksnefnd og gera stutta heimildarmynd fyrir Ríkissjónvarpið. „Við erum auðvitað búnir að leggja til mikinn kostnað og eins fá mikinn stuðning. Við erum búnir að bóka flug hjá þremur flugfélögum og hótel og ég sit bara sveittur núna fyrir framan tölvuna að reyna að bjarga því sem bjargað verður. En á móti kemur að maður hefði heldur ekki viljað fara af stað þegar ástandið er jafnslæmt og raun ber vitni eða taka einhverja sénsa."

Birgir segir engan vafa leika á því að þeir félagar muni nýta alla þá líkamsþjálfun sem þeir hafa lagt á sig síðustu mánuði til einhvers þrátt fyrir að ekkert verði af Sahara-hlaupinu um sinn. „Alveg klárlega, þegar maður er búinn að æfa þetta mikið er tómarúm sem þarf að fylla. En það er nóg til af skemmtilegum verkefnum og við finnum okkur eitthvað krefjandi."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert