„Ég er alveg búinn á því“

Fjórmenningarnir á áfangastað í morgun.
Fjórmenningarnir á áfangastað í morgun. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

„Ég er alveg búinn á því,“ sagði Arnór Hreiðarsson, nemandi í Verzlunarskóla Íslands, sem gekk í nótt ásamt félögum sínum frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur. Með göngunni vildu þeir afla fjár til stuðnings byggingu skóla í Úganda.

Það voru sjö drengir sem lögðu af stað frá Þorlákshöfn, en fjórir kláruðu gönguna, en þeir eru auk Arnórs, Sigvaldi Fannar Jónsson, Reynir Jónasson og Óttar Guðmundsson. Arnór sagði að hinir þrír hefðu ekki klárað gönguna vegna meiðsla og af öðrum ástæðum.

Piltarnir lögðu af stað frá Þorlákshöfn kl. 19 í gærkvöldi og gengu í alla nótt. Þeir skiluðu sér í hús við Verzlunarskólann laust fyrir kl. 9 í morgun. „Það var skafrenningur og brjálað rok í Þrengslunum, en þegar við komum út á þjóðveg 1 þá skánaði veðrið til muna. Við höfðum reyndar vindinn sem betur fer í bakið,“ sagði Arnór þegar hann var spurður um hvernig aðstæður hefðu verið.

Þrátt fyrir þreytuna ætlaði Arnór að mæta í tíma í skólanum í dag. „Ég er ákveðinn í því að þrauka út daginn. Ég er með fyrirlestur í náttúrufræði eftir hádegið,“ sagði Arnór, en viðurkenndi að hætta væri á að athyglin yrði ekki 100% í tímum í dag.

Það er góðgerðarráð Verzlunarskóla Íslands sem tekur þátt í því að styrkja skólabygginguna í Úganda og gangan er farin til að styrkja þetta verkefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert