Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa verður afhent rekstraraðilum eftir mánuð og eins og komið hefur fram verða fyrstu tónleikarnir haldnir hinn fjórða maí.
Um 650 manns vinna nú að framkvæmdum í húsinu og er allt á áætlun samkvæmt upplýsingum Þórunnar Sigurðardóttur, stjórnarformanns Ago ehf. sem mun sjá um starfsemi, rekstur og markaðssetningu tónlistar- og ráðstefnuhússins
„Við leggjum alla áherslu á að klára salina fyrst. Glerveggirnir verða ekki komnir þegar fyrstu tónleikarnir eru. Flestöll hús af þessari stærðargráðu eru yfirleitt opnuð í pörtum og hollum og það gerum við líka,“ segir Þórunn í Morgunblaðinu í dag.
Harpa verður að hluta til umkringd sjó. Á næstu dögum verður byrjað að hleypa sjó að húsinu og mun það ferli standa yfir í nokkra daga.