Norska jarðfræðistofnunin (NGU) mun standa að flugsegulmælingum austur af landinu, á Drekasvæðinu, en einnig innan norskrar lögsögu í haust. Auk NGU standa Orkustofnun og norska Olíustofnunin að þessum mælingum.
Orkustofnun áætlar að flugsegulmælingarnar verði gerðar á um 64.000 ferkílómetra svæði í Íslands- og Noregshafi. Nýju gögnin munu gera það mögulegt að kortleggja heildarreksögu Jan Mayen meginlandsflísarinnar. Jarðeðlisfræðileg túlkun á gögnunum mun einnig auðvelda ákvarðanir á tímasetningum atburðarrásar gliðnunar Drekasvæðisins og nærliggjandi svæða. Kortlagning á mörkum úthafs og meginlandsskorpu sem verður hluti af niðurstöðum mælinganna er eitt af lykilatriðum við mat á olíulíkum á svæðinu.