Reisi nýtt húsnæði við flugvöllinn

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að ríkið hafi lagt til að reist verði nýtt húsnæði vestan Reykjavíkurflugvallar, þar sem núverandi þjónustumiðstöð er. Þetta verði gert eins fljótt og kostur sé.

Ögmundur segir að ríkið hafi átt í ágætum viðræðum við Reykjavíkurborg um málið, bæði fyrir áramót og nú síðast í janúar.

„Til stóð að reisa mikla samgöngumiðstöð við flugvallarsvæðið Öskjuhlíðarmegin, austan megin flugvallarins. Ríkið hefur núna fallið frá þeim áformum vegna andstöðu frá borgaryfirvöldum sem töldu þetta ekki henta, eða passa inn í framtíðaráform um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu svo og vegna þess að Reykjavíkurborg hefur horft til þess að flugvöllurinn verði fluttur,“ sagði Ögmundur og bætti við að ríkið væri á öndverðum meiði

.„Ég hef verið þeirrar skoðunar, mjög eindregið, að Reykjavíkurflugvöll eigi ekki að flytja. En við komust ekki hjá því að stórbæta alla aðstöðu fyrir innanlandsflugið. Þess vegna er okkar tillaga sú að reist verði nýtt húsnæði vestan flugbrautarinnar, þar sem núverandi þjónustumiðstöð er. Og að þetta verði gert eins fljótt og kostur er,“ sagði Ögmundur á Alþingi í dag.

„Ég hef trú á því að samkomulag náist um skipan til einhverra ára, en Reykjavíkurborg vill halda í sínar hugmyndir um flutning Reykjavíkurflugvallar. Og við á hinn bóginn viljum halda í stefnu okkar um að flugvöllurinn flytji ekki. Þá þurfa menn að finna málamiðlunarlausn sem að þjónar og gagnast innanlandsfluginu. Það verður ekki gert öðruvísi en með því að bæta aðstöðuna. Þetta er líka langódýrasti kosturinn,“ segir Ögmundur.

Menn nái ekki farsælli lausn í málinu nema með góðu samkomulagi á milli ríkisins og Reykjavíkurborgar. Borgin hafi skipulagsvaldið en ríkið sé umsjónaraðili flugvallarsvæðisins og flugvallarins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert