Ræddu um áhuga á Hverahlíðarvirkjun

Orkuveitan hefur borað rannsóknarborholur vegna Hverahlíðarvirkjunar.
Orkuveitan hefur borað rannsóknarborholur vegna Hverahlíðarvirkjunar. mbl.is/Rax

Arnar Sigurmundsson, stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða, vonast eftir að fá svar í næstu viku frá Orkuveitunni um hvort fyrirtækið er tilbúið að taka upp formlegar viðræður við lífeyrissjóðina um sölu eða fjármögnun Hverahlíðarvirkjunar.

Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða hefur lýst yfir áhuga á að eignast eða fjármagna Hverahlíðarvirkjun. Orkuveita Reykjavíkur hefur undirbúið virkjunina. Búið er að vinna umhverfismat, bora nokkrar borholur og festa kaup á hverflum frá Japan. Fyrirtækið á hins vegar erfitt með að fjármagna virkjunina, en áætlað er að hún kosti um 25 milljarða.

Orkuveitan og Norðurál höfðu gert með sér samninga um orkusölu. Arnar sagði að áður en lífeyrissjóðirnir gætu komið að málinu þyrfti að liggja fyrir samkomulag milli OR og Norðuráls um aðkomu lífeyrissjóðanna að málinu.

Forystumenn Landssamtaka lífeyrissjóða áttu í dag fund með forstjóra og stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur þar sem farið var yfir málið. Einnig töluðu þeir við forstjóra Norðuráls.

„Þetta er eðlileg byrjun, en nú er boltinn hjá Orkuveitunni,“ sagði Arnar um fundina í dag. Hann sagði að málið væri flókið og áður en lengra væri haldið þyrfti Orkuveitan að fara yfir málið og væntanlega fá umboð stjórnar til að hefja viðræður við lífeyrissjóðina. Eins þyrftu lífeyrissjóðirnir að fá upplýsingar um stöðu verkefnisins og fleira.

Arnar sagðist eiga von á að heyra frá Orkuveitunni eftir helgina og þá myndi skýrast hvað stefnu viðræður myndu taka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert