Atvinnumálanefnd Framsóknarflokksins gerir í skýrslu sinni, sem rædd verður á Flokksþingi 2011, tillögur að atvinnuverkefnum sem geta skapað allt að 11.800 tímabundin og varanleg störf.
„Mikilvægast er að aðgerðir stjórnvalda greiði fyrir fjölgun starfa en hamli henni ekki að óþörfu. Svigrúm til að auka opinber útgjöld er ekki mikið um þessar mundir en margt er hægt að gera án beinna
opinberra fjárfestinga,“ segir m.a. í skýrslunni.
„Tillögurnar sem finna má hér á eftir snúast ekki síst um að benda á
verkefni af þeim toga. Nefndin telur að með þessum tillögum sé bent á leiðir til að vinna bug á atvinnuleysinu, bæði með því að skapa störf til lengri og skemmri tíma.
Erfitt er að fullyrða um heildaráhrif tillagnanna hvað fjölda nýrra starfa varðar, enda hafa þær áhrif hver á aðra, en meginatriðið er að við megum ekki láta það óátalið lengur að 15 þúsund manns gangi
atvinnulaus.
Til viðbótar þeim tillögum sem lagðar eru fram í skýrslunni eru fram undan miklar framkvæmdir í samgöngumálum. Hugmyndir eru uppi um fjárfestingu upp á 50–60 milljarða sem mun skapa 2.000–3.000 tímabundin störf. Fjárfestingin mun hafa jákvæð áhrif á verktakaiðnaðinn hér á landi en sú atvinnugrein hefur farið hvað verst út úr efnahagshruninu.
Mikilvægt er að þessar framkvæmdir dreifist með skynsamlegum hætti um landið og að einnig verði horft til smærri verkefna, s.s. að fækka einbreiðum brúm og byggja upp tengivegi en slík verk eru mannaflsfrekari en þau stærri.“