Vélsleðamaðurinn í aðgerð

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi.

Vélsleðamaðurinn sem slasaðist á Tröllafjalli í Reyðarfirði í dag liggur nú alvarlega slasaður á slysadeild Landspítalans. Að sögn vakthafandi læknis er maðurinn, sem er á fimmtugsaldri, með slæm beinbrot og mun gangast undir aðgerð vegna þeirra síðar í kvöld.

Slysið átti sér stað skömmu eftir hádegi í dag, þegar maðurinn var á vélsleðaferð ásamt félögum sínum á Tröllafjalli í Áreyjardal, inn af Reyðarfirði. Á þriðja tug manna úr þremur björgunarsveitum á Austurlandi fóru ásamt lækni með vélsleðum að manninum og var hann fluttur á börum niður af fjallinu. Aðgerðirnar tóku um 2 klukkustundir.

Ekið var með manninn á Heilsugæsluna á Egilsstöðum og þaðan var hann sendur áfram með sjúkraflugi á Landspítalann, þangað sem hann kom nú undir kvöld.  Læknir á slysadeild segir að líðan hans sé stöðug en hann sé engu að síður mikið slasaður og verði lagður inn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert