Á 157 km hraða í Ártúnsbrekku

Hámarkshraði í Ártúnsbrekkunni er 80 km.
Hámarkshraði í Ártúnsbrekkunni er 80 km.

Sautján ára piltur var staðinn að hraðakstri í Ártúnsbrekku í gærkvöld en bíll hans mældist þar á 157 km hraða.

Að sögn lögreglunnar á pilturinn yfir höfði sér háa sekt og ökuleyfissviptingu og fái hann því ágætan tíma til að hugsa ráð sitt. Ekki virðist vera vanþörf á því þrátt fyrir ungan aldur hafi pilturinn áður verið tekinn fyrir hraðakstur.

Samkvæmt sektarreikni Umferðarstofu á ökumaðurinn ungi von á sekt upp á 150 þúsund krónur, að missa ökuleyfið í 3 mánuði og einnig fær hann fá 3 refsipunkta í ökuferilsskrá.

Þar sem pilturinn er handhafi bráðabirgðaskírteinis verður hann jafnframt settur í ótímabundið akstursbann. Ökuskírteinið fær hann ekki aftur fyrr en hann hefur sótt sérstakt námskeið og tekið ökuprófið að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert