Fagnar nýjum fasteignalánum

Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri félags fasteignasala segist fagna því að bankarnir séu að bjóða upp á nýja kosti í fasteignalánum. Hann segir fasteignamarkaðinn vera að glæðast og býst við hækkun á fasteignaverði.

„Við fögnum því að bankarnir séu að koma aftur inn á markaðinn með fasteignalán, þeir hafa lítið verið að lána til fasteignakaupa að undanförnu,“ segir Grétar.

Erfitt að komast inn á markaðinn

Hann segir að valkostur Arion banka, sem er að bjóða lán fyrir allt að 80% að andvirði fasteignar, sé ánægjuleg þróun.

„En fyrstu kaupendur eiga erfitt með að komast inn á markaðinn, þeir þurfa að eiga talsvert fé. Hugsanlega munu aðrar fjármálastofnanir koma til móts við þennan hóp og ég útiloka ekki að aðrir bankar muni gera fyrstu kaupendum auðveldara fyrir til, að ná forskoti í samkeppninni við aðra banka.“

„Bankarnir sjá að fasteignaverð er orðið nokkuð stöðugt og spár gera ráð fyrir að fasteignaverð muni hækka um 10% í ár. Þannig að það er ekki eins mikil áhætta fyrir bankana að lána fyrir fasteignum eins og var fyrir nokkrum misserum.“

Grétar segir að  talsvert auðveldara hafi verið fyrir fólk að festa kaup á sinni fyrstu íbúð fyrir nokkrum árum, en þá buðu margir bankar upp  á 100% fasteignalán. „En fram að því var ástandið svipað og það er í dag.“

Nokkuð eðlilegt horf

Hann segir fasteignamarkaðinn vera að glæðast og færast í „nokkuð eðlilegt horf“.

„Fasteignamarkaðurinn hefur gengið í gegnum miklar hremmingar, en spár gera ráð fyrir að nú sé kominn ákveðinn stöðugleiki á markaðinn sem mun vera næstu árin. Það er allt annað landslag núna en var fyrir ári, þegar allt var í frosti. Opinberar tölur sýna glögglega að fasteignaviðskipti hafa blómgast. Til dæmis er víða verið að bítast um eignir og fasteignasalar segja að mikið sé um fyrirspurnir.

Að sögn Grétars er um þessar mundir mest eftirspurn eftir eignum á verðbilinu 20 - 40 milljónir.

„Undanfarin 3-4 ár hefur klárlega verið kaupendamarkaður. En núna er markaðurinn hagstæður bæði kaupendum og seljendum,“ segir Grétar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert