Enn er frávísun hafnað

Gestur Jónsson, Jakob R. Möller og Kristín Edwald, verjendur Jóns …
Gestur Jónsson, Jakob R. Möller og Kristín Edwald, verjendur Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Tryggva Jónssonar og Kristínar Jóhannesdóttur. Morgunblaðið/Sigurgeir

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði fyrir hádegið kröfum verjenda ákærðu í skattahluta Baugsmálsins svonefnda um frávísun málsins frá dómi. Farið var fram á frávísunina á grundvelli þess að ákæra í málinu væri svo óskýr að hún uppfyllti ekki lagaskilyrði, og ákærðu gætu ekki með góðu móti áttað sig á sakarefninu.

Í málinu eru ákærð Jón Ásgeirs Jóhannesson, Kristín Jóhannesdóttir og Tryggvi Jónsson auk fjárfestingafélagsins Gaums fyrir stórfelld skattalagabrot, bæði persónulega og sem stjórnendur í Baugi og Gaumi. Málflutningur um kröfuna fór fram í síðustu viku. Verjendur ákærðu rökstuddu frávísunarkröfuna með því að engin leið væri til að átta sig á sakarefninu af ákærunni einni. Til stuðnings var vísað í dóm 420/2005, Baugsmál hið fyrra, en þar er lýst hvaða kröfur eru gerðar til skýrleika ákæru.

Var því haldið fram að dómurinn hefði fordæmisgildi og voru tekin dæmi um dóma sem fallið hafa eftir Hæstaréttardóminn.

Í Hæstaréttardómnum segir meðal annars: „Til að fullnægja því, sem áskilið er í þessu ákvæði, verður verknaðarlýsing í ákæru að vera það greinargóð og skýr að ákærði geti ráðið af henni hvaða refsiverð háttsemi honum er gefin að sök og hvaða refsilagaákvæði hann er talinn hafa brotið, án þess að slík tvímæli geti verið um það að með réttu verði honum ekki talið fært að taka afstöðu til sakargifta og halda uppi vörnum gegn þeim.“

Ákæra grundvöllur málsins

Helgi Magnús Gunnarsson, settur ríkislögreglustjóri, er ósammála því að ákæra hans sé jafn óskýr og verjendur halda fram. Við málflutning benti hann á fordæmi fyrir uppsetningu ákæra í sambærilegum málum, s.s. fjárdráttarmálum, og hafi þau mál farið fyrir Hæstarétt og verið dæmd þar án athugasemda.

Þá sagði hann að ef ákæra eigi að móta grundvöll í málum, ef hún væri í þessu máli eftir höfði verjendanna yrði hún aðeins óskýrari og varast þurfi að gera ákæruna svo ítarlega að það flæki málið. Þá sagði hann ákæruna nægilega skýra fyrir ákærðu að skilja sakarefnið, taka afstöðu til sakargifta og haldi uppi vörnum.

Pétur Guðgeirsson, dómari málsins, féllst á rök setts ríkislögreglustjóra. Athyglisvert er, að Pétur var einmitt sá héraðsdómari sem vísaði allri ákærunni í Baugsmáli hinu fyrra frá dómi vegna þess hversu óskýr hún var. Hæstiréttur var honum þá sammála að miklu leyti en vísaði nokkrum ákæruliðum aftur heim í hérað til efnismeðferðar.

Helgi Magnús Gunnarsson, settur ríkislögreglustjóri, í skattahluta Baugsmálsins.
Helgi Magnús Gunnarsson, settur ríkislögreglustjóri, í skattahluta Baugsmálsins. Morgunblaðið/Sigurgeir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert