Eldingar í gosmekkinum

Myndin var tekin í kvöld úr flugvélinni TF-SPA.
Myndin var tekin í kvöld úr flugvélinni TF-SPA. mynd/Andri Orrason

Flugfélagið Ernir flaug yfir Grímsvötn í kvöld með vísindamenn á vegum Almannavarna. Flugvél Landhelgisgæslunnar er biluð og verður ekki flughæf fyrr en eftir helgi. Eldingar eru í gosmekkinum.

Orri Eiríksson verkfræðingur flaug í kvöld upp að eldstöðvunum. Hann sagði að mikill kraftur hefði verið í gosinu. Eldingar hefðu verið í mekkinum. M.a. hefði hann séð eldingar stinga sér úr mekkinum niður í jökulinn í 30-40 km fjarlægð frá Grímsvötnum þar sem gýs.

Orri hefur oft skoðað eldgos úr flugvélum og sagði að þetta gos væri ekki  minna en þegar Eyjafjallagosið var stærst. Hann sagði að mikil aska væri í mekkinum. Efst uppi væri vestanátt og sú aska sem þangað næði féll á Kirkjubæjarklaustri og Suðursveit. Neðar í mekkinum væri norðangola og því mætti búast við öskufalli í Þórsmörk og Landmannalaugum.

Reynir Einarsson,  flugstjóri hjá Icelandair, sendi mbl.is skeyti í kvöld og sagðist hafa flogið yfir Vatnajökul í 40 þúsund feta hæð, en gosmökkurinn væri í 50-55 þúsund feta hæð yfir gosstöðvum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert