Gæti haft áhrif á flugumferð

Gosmökkurinn hefur náð 18-19 km hæð.
Gosmökkurinn hefur náð 18-19 km hæð. mbl.is/Jónas Erlendsson

Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur segist ekki geta útilokað að eldgosið í Grímsvötnum eigi eftir að hafa áhrif á flugumferð við Ísland. Gosið væri mun stærra en gosið í Grímsvötnum árið 2004. Fyrsti fasi gossins væri kraftmikill.

Vísindamenn flugu yfir Grímsvötn í kvöld og átti Freysteinn fund með þeim til að reyna að átta sig á stöðunni.

Freysteinn sagði að eldgosið hefði komið upp í SV-horni Grímsvatna, á nokkuð hefðbundnum stað, þar sem hefði gosið áður. „Það er ljóst að þetta er miklu meira gos en gosið 2004. Mökkurinn er kominn í 18-19 km hæð sem er mjög hátt. Spurningin er bara hvað það helst lengi.“

Aðspurður hvort þetta væri stórt gos sagði Freysteinn. „Við skulum orða það þannig að þetta er kraftmikil byrjun á gosi.“

Freysteinn sagði að spár lægju fyrir um áhrif eldgossins á flugumferð. „Enn um sinn eru áhrifin staðbundin við Ísland. Það er spurning um áhrifin á flug hér á Íslandi og í Keflavík. Það þarf að skoða það. Við erum ekki að tala um áhrif út í heimi.“

Spurður hvort gosið gæti lokað Keflavíkurflugvelli sagði Freysteinn. „Það fer eftir því hvernig vindarnir liggja. Það er ekki útilokað.“

Freysteinn sagði að það væri áttleysa yfir Grímsvötnum og því væri ekki alveg fyrirséð hver þróunin yrði. Það ætti að vera orðið skýrara í fyrramálið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert