„Bæjarráð Akureyrar lýsir yfir megnri óánægju með ákvörðun Já Upplýsingaveitna hf. að loka starfsstöð ja.is á Akureyri,“ segir í fundargerð bæjarráðs Akureyrar frá því í dag. Fyrirtækið hafi notið góðs af þjónustu þess starfsfólks sem nú yrði fyrir barðinu á þeirri ákvörðun að flytja starfsemina á suðvesturhorn landsins.
Þá segir að bæjarráði þyki miður að fyrirtækið hafi ekki haft samráð við ráðamenn á Akureyri áður en ákvörðunin var tekin. Bæjarstjóri hefði óskað eftir fundi með forsvarsmönnum fyrirtækisins en þeir ekki orðið við því.
Tilkynnt var nýverið um að starfsfólki Já Ugglýsingaveitna hf. yrði fækkað um 6–8 og þjónustuveri Já á Akureyri lokað. Á móti yrðu þjónustuver fyrirtækisins í Reykjanesbæ og Reykjavík efld. Gert er ráð fyrir að aðgerðirnar koma til framkvæmda í haust.