Rannsóknarnefnd þjóðkirkjunnar skilaði forsætisnefnd kirkjuþings í morgun skýrslu um starfshætti og viðbrögð kirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni, biskupi, um kynferðisbrot.
„Ég fagna því að þessari rannsókn er lokið og þessi rannsóknarskýrsla er nú komin fram,“ sagði Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings og formaður forsætisnefndar kirkjuþings, við mbl.is áður en rannsóknarnefndin kynnti skýrsluna formlega í Grensáskirkju í morgun.
Þeir Róbert Ragnar Spanó og Þorgeir Ingi Njálsson, sem skipa rannsóknarnefndina, ásamt Berglindi Guðmundsdóttur, afhentu Pétri Kr. Hafstein, Margréti Björnsdóttur og Magnúsi E. Kristjánssyni, sem sitja í forsætisnefnd kirkjuþings, skýrsluna í Grensáskirkju í morgun.
Rannsóknarnefndin átti að leggja mat á hvort um mistök, vanrækslu eða vísvitandi þöggun eða tilraun til þöggunar hafi verið að ræða af hálfu vígðra þjóna og starfsmanna kirkjunnar, eða annarra þeirra sem gegnt hafa trúnaðarstörfum í þágu kirkjunnar, eftir að ásakanir um kynferðisbrot voru komnar fram og hverjir kunni að bera ábyrgð á því.
Boðað hefur verið til blaðamannafundar klukkan 10:30 þar sem efni skýrslunnar verður kynnt. Þá hefur kirkjuþingið verið kallað saman á þriðjudag til þess að ræða skýrslu rannsóknarnefndarinnar og taka ákvörðun um frekari aðgerðir sem nauðsynlegar kunna að vera. Pétur segir að gert sé ráð fyrir að þingið muni standa yfir í einn dag. Þar meti menn stöðuna og fari yfir efni skýrslunnar.
„Það var kirkjuþing, sem er æðsta stofnun í kirkjunni og er að meirihluta skipuð leikmönnum, sem ákvað það einum rómi á síðasta kirkjuþingi, að stofna til þessarar rannsóknar. Þess vegna fannst mér einboðið að kirkjuþingið sjálft þyrfti að koma saman strax og skýrslan lægi fyrir til þess að taka við efni hennar og vega og meta það sem þar kemur fram. Og eftir atvikum að setja í málefnanlegan farveg eitthvað af því sem ábendingar nefndarinnar kunna að lúta að,“ sagði Pétur.
Kirkjuþing kemur saman 14. júní nk. til að ræða og fara yfir niðurstöðurnar.