Kafbátur frá Íslandi til Kanarí

Kafbáturinn Webb Glider sjósettur í morgun.
Kafbáturinn Webb Glider sjósettur í morgun. Ljósmynd / Teledyne Gavia

Sjósetning lítils kafbáts fór fram í morgun um tíu sjómílur suður af Grindavík en hann mun á næstu fimm mánuðum sigla rúmlega fjögur þúsund kílómetra leið til Kanaríeyja. Tilgangurinn er að mæla ýmsa eiginleika hafsins á leiðinni eins og seltu og hitastig sem nýtast mun við hafrannsóknir.

Vísindamennirnir sem standa að verkefninu eru staddir hér á landi á vegum fyrirtækisins Teledyne Gavia í Kópavogi sem er systurfyrirtæki Teledyne Webb í Bandaríkjunum sem framleiddi kafbátinn.

Að sögn Arnars Steingrímsson, sölu- og markaðsstjóra Teledyne Gavia, mun kafbáturinn koma upp á yfirborðið á u.þ.b. átta klukkustunda fresti og hafa samband við þá sem að verkefninu standa og gefa upp staðsetningu sína. Þá gefist einnig tækifæri til þess að breyta stefnu hans ef þörf gerist t.d. vegna óheppilegra hafstrauma.

Aðspurður segir Arnar að kafbáturinn, sem nefnist Webb Glider, sé knúinn af rafhlöðu og sé afar sparneytinn á þá orku. Hann vegur um 40 kíló og er gerður úr léttum en sterkum efnum.

Þess má geta að kafbáturinn fór árið 2010 frá New Jersey í Bandaríkjunum og til Spánar í hliðstæðum tilgangi og tók sú ferð sjö mánuði.

Ljósmynd / Teledyne Gavia
Ljósmynd / Teledyne Gavia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert