Hefðu viljað veiða meiri þorsk

Togarar að veiðum á Íslandsmiðum.
Togarar að veiðum á Íslandsmiðum. mbl.is/Árni Sæberg

„Við hefðum gjarnan viljað láta veiða meiri þorsk, en það er bara ekki hægt vegna núverandi aflareglu,“ sagði Adolf Guðmundsson, formaður Landsambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) um ákvörðun sjávarútvegsráðherra um fiskveiðikvóta á næsta ári.

Adolf sagði að úthlutunin í þorski komi ekki á óvart og sé í samræmi við það sem búist var við. Hann sagði að sér þætti ráðherrann rausnarlegur við úthlutun í aflahlutdeild í ufsa og ýsu miðað við ásand stofnanna og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar í þessum tegundum.

Adolf taldi að aukning ufsakvótans í 52.000 tonn sé til þess að hægt verði að setja 2.000 tonn í smábátakerfið samkvæmt nýjum lögum. Hann benti á að Hafrannsóknastofnunin hafi lagt til 45.000 tonna ufsakvóta.

Þá hafi stofnunin lagt til ýsukvóta upp á 37.000 tonn en kvótinn verði 45.000 tonn. Adolf sagði að útgerðarmenn hefðu viljað fara varlegar í ýsuveiðar á næsta ári en ráðherrann hefur ákveðið.

„Heilt yfir kemur þessi úthlutun mér ekki á óvart,“ sagði Adolf. Hann sagði að samkvæmt nýjum lögum um fiskveiðar verði tekið af þorskkvótanum í byggðakvóta og strandveiðar. Aukningin í þorski til aflamarksskipa verði um 12.000 tonn. Einnig verði hlutfallsleg minnkun í ýsu og ufsa til aflamarksskipa. 

Adolf sagði að bann við loðnuveiðum í sumar komi ekki á óvart og enginn ágreiningur um það milli útgerðarinnar og ráðuneytisins. Þá sagði hann að úthlutun loðnu til nágrannaþjóða komi ekki heldur á óvart.

Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ
Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert