Brúarsmíði yfir Múlakvísl gengur eins og í sögu og er því jafnvel hvíslað að opnað verði fyrir umferð um helgina. Fyrir ferðamenn sem flytja þarf yfir ána með rammbyggðum rútum eru aðstæður á staðnum ævintýri líkastar.
Tveir brúarvinnuflokkar eru á staðnum. Brúin verður 156 m löng, byggð í 9 mislöngum höfum en því ráða lengdir stálbita sem voru til á lager Vegagerðarinnar.
Tíu til tólf metra langir rafmagnsstaurar eru reknir niður og eru fjórir staurar í hverju oki. Hæð undir stálbita er um 2,5 metrar. Brúin er byggð á fyllingu sem síðan verður fjarlægð og ánni beint undir brúna. Líklegt er að það verði gert á laugardagsmorgun.