„Lánið sem félagið fékk frá Íbúðalánasjóði og var 20 milljónir á íbúð í upphafi er komið í 24 milljónir á aðeins tveimur og hálfu ári. Þetta er auðvitað algjört rán,“ segir Örn Kærnested, framkvæmdastjóri Laugarakurs, sem er fasteignafélag í eigu Íslandsbanka. Hann gagnrýnir vísitölubindingu húsnæðislána og segir hana éta upp eigið fé í húsnæði. Þetta eigi jafnt við um almenning og fasteignafélög sem þurfa að greiða af lánum sem hvíla á íbúðunum.
Bankarnir og Íbúðalánasjóður eiga í dag um 3.000 íbúðir, en þar af á Íbúðalánasjóður um 1.400 íbúðir. Ekki liggja fyrir tölur um hversu margar eignir fjármálastofnanir hafa selt á síðustu árum en þær skipta hundruðum. Landsbanki og Arion banki mörkuðu þá stefnu eftir hrun að setja íbúðir sem þeir hafa yfirtekið strax í sölu. Íslandsbanki er með sömu stefnu, en hefur þó verið með margar íbúðir í leigu. Íbúðalánasjóður og Frjálsi fjárfestingabankinn hafa ekki treyst sér að setja allt út á markaðinn í einu af ótta við að það hafi neikvæð áhrif á fasteignaverð.
Þegar Íslandsbanki yfirtók Laugarakur var staðan ekki björguleg. Félagið átti um 200 óseldar íbúðir. Sumar voru fullbúnar en aðrar voru hálfkláraðar eða óbyggðar. Hverfið var hálfgert draugahverfi. Ákveðið var að leigja um 100 íbúðir og ljúka við byggingu á þeim íbúðum sem eftir var að klára. Með því að fá leigjendur í húsin kom líf í hverfið og þar með jókst eftirspurn eftir íbúðunum.
Örn segir að þetta mikla verkefni, að selja íbúðirnar, hafi gengið vel, en þetta hafi verið mjög erfitt í byrjun. Verðið hafi hækkað, en á móti komi að mjög dýrt sé fyrir félagið að eiga og reka íbúðirnar í svona langan tíma. Það hafi tekið á þriðja ár að selja þær. Nú séu aðeins um 20 íbúðir Laugarakurs óseldar í Garðabæ.
Örn segir verðtryggingu húsnæðislána ekki ganga upp þegar fasteignaverð lækki. „Í gegnum árin hefur hækkun á markaðsverði fasteigna haldið þessu dæmi gangandi. Núna, þegar markaðsverðið stendur í stað eða lækkar og vísitalan hækkar, þá er vísitalan að éta upp eigið fé fólks í húsnæðinu.“
Magnús Pálmarson, ráðgjafi hjá Frjálsa fjárfestingabankanum, segir að bankinn hafi tekið þá stefnu að fara sér hægt í sölu. Það hafi engan tilgang að yfirfylla markaðinn sem leiði til verðfalls og taps, ekki síst fyrir bankana sem eigi veð í íbúðarhúsnæði.
Allar fullkláraðar íbúðir Fjárfestingabankans eru í leigu og Magnús segir mikla eftirspurn eftir leiguhúsnæði. Þær íbúðir sem losni séu auglýstar til sölu ef þær séu taldar söluvænlegar.
Fjárfestingabankinn var mjög stór lánveitandi byggingaverktaka. Bankinn stóð frammi fyrir gríðarlegu tjóni þegar markaðurinn hrundi. „Byggingaverktakar stóðu allt í einu frammi fyrir því að það vildi enginn kaupa íbúðir, það voru engar tekjur að koma inn, útistandandi lán voru strax komin í vanskil og markaðshorfur voru mjög dökkar. Það gefur augaleið að slík mál geta ekki endað nema illa,“ segir Magnús.
Friðrik S. Halldórsson hjá Hömlum segir að Hömlur hafi þá stefnu að setja allar fasteignir í sölu um leið og þær séu tilbúnar til sölu, þ.e. gerðarþoli sé farinn úr húsnæðinu. „Stefna okkar er ekki að bíða með að setja eign á sölu út frá einhverjum pælingum um markaðsaðstæður, heldur setjum við eignir á sölu svo fljótt sem hægt er.“ Friðrik segir að það sé bjartara yfir fasteignamarkaðinum, en það sé þó mismunandi eftir landssvæðum.
Arion banki átti 80 íbúðir um síðustu mánaðamót og Landey, dótturfélag bankans, átti um 120 íbúðir. „Jafn skjótt og eignirnar eru afhentar og þær tilbúnar til sýningar hefst opið söluferli í gegnum fasteignasölur,“ segir Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka.
Mikil eftirspurn er eftir leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og misjafnlega gengur hjá fólki að finna nýtt leiguhúsnæði, sérstaklega ef fólk vill halda sig við sama hverfi.