Aðalkröfu hjóna um að ákvæði skuldabréfs yrði dæmt óskuldbindandi var vísað frá dómi í héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Arion banki var í málinu sýknaður af kröfu um að hjónunum yrði einungis gert að standa skil á jafnvirði 23 milljónum króna í japönskum jenum, samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins sjálfs.
Um fasteignalán í erlendri mynt var að ræða og töldu hjónin að þeim bæri ekki að greiða lánið sem var erlent myntkörfulán, gengistryggt með breytilegum erlendum vöxtum. Lánið var til 25 ára og með gjalddaga á mánaðarfresti. Vextir skyldu reiknast frá kaupdegi. Í þar til gerðum reitum var þess getið að „grunnvextir“ væru 1,78%, „vaxtaálagið“ 1,3% og „vegnir vextir samtals nú“ 3,08%.
Stóð í 65 milljónum 1. mars
Hjónin greiddu afborganir af skuldabréfinu mánaðarlega frá 1. júlí 2007 til 1. desember 2008 en hafa ekki greitt af því síðan þar sem þau segjast efast um skuldbindingargildi þess.
Í útreikningum Arion banka frá 1. mars sl. stóð lánið í tæpum 65 milljónum króna.
Samkvæmt endurútreikningi voru áfallnir vextir á upphaflegan höfuðstól
13.460.272 krónur. Greiðslur til vaxtaútreiknings eru 3.370.707 krónur og
vextir á innborganir 1.328.861 króna. Alls hafi verið greitt inn á kröfuna
4.699.568 krónur. Nýr höfuðstóll er sagður 31.760.704 krónur og hafi hann því
lækkað um 32.975.027 krónur.
Eftir málið var dómtekið hafa gengið dómar í Hæstarétti þar sem talið hefur verið að ákvæði lánssamninga í íslenskum krónum, sem bundnir væru við gengi erlendra gjaldmiðla, brytu í bága við lög um vexti og verðtryggingu með síðari breytingum.
Þá féll dómur í Hæstarétti hinn 16. september sl. þar sem fram kom að þegar ákvæðið um gengistryggingu í samningi aðilanna væri ógilt og bein og órjúfanleg tengsl væru milli þess ákvæðis og fyrirmæla þar um vexti væri hvorki unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt eftir orðanna hljóðan né gefa þeim með skýringu annað inntak, enda lægi fyrir í málinu að á millibankamarkaði í London hafa aldrei verið skráðir LIBOR-vextir af lánum í íslenskum krónum.
Vegna þessa taldi rétturinn óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vexti.
Kvað rétturinn upp úr um að í svo breyttu réttarástandi bæri að líta svo á samninga með gengistryggingu að þar hafi verið samið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera. Þá gilti réttarregla sem lýsti því ástandi að samið hafi verið um að greiða vexti en vaxtaviðmiðun hafi ekki verið tiltekin. Samkvæmt greininni skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum.
Hinn 28. desember sl. tóku gildi lög sem fólu m.a. í sér breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu. Fram kom í athugasemdum með frumvarpi að lögunum að dómar Hæstaréttar um gengistryggð lán hefðu leitt í ljós verulega annmarka á framkvæmd laganna.
Þótt dómarnir hefðu létt af mestu óvissunni væri engu síður hætt við að ágreiningur yrði gerður um lögmæti fjölda samninga á víðtæku sviði skammtíma- og langtímafjármögnunar. Meginmarkmið frumvarpsins væri því að draga úr þessari óvissu.
Til grundvallar væru lögð þau sanngirnisrök að sambærileg mál fengju sambærilega niðurstöðu auk þess að tryggja réttaröryggi við uppgjör lána með óskuldbindandi gengisviðmiðun.
Voru í lögunum sett ákvæði til bráðabirgða til að taka á tímabundnum úrlausnarefnum vegna óviss réttarástands á samhæfðan hátt og þá voru gerðar tvær breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu.
Lögmælt var að hefði verið samið um ólögmæta vexti eða verðtryggingu skyldi hvort tveggja koma til endurskoðunar í samræmi við lögin. Sett var sú sérregla að ef lánssamningar til lengri tíma en fimm ára geymdu ólögmæt ákvæði gildi sú meginregla að af þeirri skuld greiðist hagstæðustu vextir af óverðtryggðum lánum samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu.
Með bókun í þinghaldi málsins féllst Arion banki á að upphaflegur höfuðstóll skuldabréfsins kuli teljast 23 milljónir króna og verði þar af leiðandi ekki „í jenum.Að mati dómsins felur framangreind bókun Arion banka í sér að lánið er ekki lengur bundið við gengi japanska jensins sem er í samræmi við kröfu hjónanna. Þau halda því hins vegar fram að þau hafi ennþá lögvarða hagsmuni af því að fá viðurkenningardóm, þar sem skorið verði úr um það að umrætt ákvæði skuldabréfsins sé óskuldbindandi, þar sem að það geti verið lykilatriði í síðar tilkomnu máli þeirra á hendur Arion banka, m.a. á grundvelli skaðabótaábyrgðar.
Hafa hjónin ekki rökstutt þessa málsástæðu frekar t.d. með því að gera grein fyrir því á hvaða forsendum skaðabótaábyrgð stefnda ætti að byggjast og taldi dómari ekki annað fært en að vísa kröfu hjónanna frá dómi.