Framkvæmdastjórn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fundaði í gær með Guðbjarti Hannessyni, velferðarráðherra. Lúðvík Ólafsson, lækningaforstjóri heilsugæslunnar, var fyrir skemmstu boðaður á fund í ráðuneytinu vegna ummæla um bága stöðu hennar í Morgunblaðinu.
Ráðherra var sjálfur ekki viðstaddur þann fund, en Lúðvík beðinn um að útbúa minnisblað fyrir ráðherra. Hann segir lítið hafa verið komið inn á þá umræðu á fundinum í gær, en þess í stað farið vítt og breitt yfir sviðið. „Það má segja að þetta hafa verið upplýsingafundur fyrir ráðherra, um hvernig við sæjum heilsugæsluna,“ segir Lúðvík.
Til fundarins í gær hafði verið boðað áður en viðtalið við Lúðvík birtist. „Jú, það er aðskilið [mál],“ segir Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Við vorum búin að óska eftir fundi áður en [viðtalið] við Lúðvík Ólafsson birtist.“ Þau atriði sem Lúðvík nefndi í viðtalinu hafi einungis borist í tal óbeint. Ennfremur hafi þau ekki verið rædd á fundi framkvæmdastjórnar heilsugæslunnar og hún því ekki tekið afstöðu til þeirra.Auk almennrar umræðu um styrkleika og veikleika heilsugæslunnar var rætt um fjárlagagerð fyrir næsta ár, en líklegt er að enn þurfi að brýna niðurskurðarhnífinn við þá vinnu. Svanhvít segir engin fyrirheit hafa verið gefin á fundinum. „Það var hvorki gefið út að okkur yrði hlíft né hversu miklum niðurskurði við mættum búast við. En ráðherra lýsti því yfir [...] að heilsugæslunni hafi verið hlíft miðað við margar heilbrigðisstofnanir eftir hrun.“