Fréttaskýring: Þurfa að hafa skikk á bæjarhátíðunum

Írskir dagar eru ein af fjölmörgum bæjarhátíðum sem haldnar eru …
Írskir dagar eru ein af fjölmörgum bæjarhátíðum sem haldnar eru um allt land. Ekki þarf að fá sömu leyfi fyrir þeim og fyrir úthátíðum. mbl.is/Július

Bæjarhátíðir sem haldnar eru á sumrin í bæjum landsins falla almennt ekki undir reglur um skemmtanahald og ekki þarf leyfi fyrir þeim eins og fyrir útihátíðum á borð við þjóðhátíð í Vestmannaeyjum eða Bestu útihátíðina. Þegar leyfin eru veitt er það gegn skilyrðum í reglugerð en þar er meðal annars um að ræða gæslu á svæðinu og að móttaka fyrir þolendur kynferðisbrota sé til staðar. Þannig eru formlega séð ekki gerðar sömu kröfur til bæjarhátíðanna.

Auglýsa neyðarsíma

Þrátt fyrir að hátíðarnar séu undanskildar reglunum um útihátíðir eiga skipuleggjendur þeirra náið samstarf við löggæslu- og heilbrigðisyfirvöld til að tryggja öryggi gesta. Björn Jósef Arnviðarson er sýslumaður á Akureyri en í umdæmi hans eru hátíðarnar Ein með öllu, Síldarævintýrið á Siglufirði og Fiskidagurinn á Dalvík haldnar.

„Lögreglan er með aukinn viðbúnað og það eru samráðsfundir mánuðina á undan. Lögreglan veit því af því hvað þeir eru að hugsa og samþykkir sumt en hafnar öðru eins og gengur,“ segir hann.

Þó að skipuleggjendur sæki ekki leyfi til sýslumanns fyrir hátíðinni segir Skúli Gautason, verkefnastjóri Einnar með öllu, að undirbúningur fari fram í góðu samstarfi við sýslumann og bæjaryfirvöld. Viðbúnaður sé við því ef kynferðisbrotamál komi upp og lögð sé áhersla á að neyðarsími fyrir þolendur slíkra afbrota sé vel kynntur í dagskrá hátíðarinnar. Þá hafi starfsmenn Aflsins, samtaka gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, auk Lionsmanna verið á vakt alla helgina.

„Ég held að það hafi tekist vel og skilað miklu. Ég er mjög þakklátur fyrir það samstarf,“ segir Skúli.

Aldurstakmörk og gæsla

Á Akranesi þar sem hátíðin Írskir dagar er haldin er svipaða sögu að segja. Ekki er sótt um leyfi fyrir hátíðinni en skipuleggjendur hennar eiga í samstarfi við heilbrigðis- og löggæsluyfirvöld þar.

Tómas Guðmundsson, verkefnastjóri Akranesstofu, segir að í ljósi dagskrár hátíðarinnar, sem sé nánast eingöngu yfir daginn, hafi ekki verið talin þörf á sérstökum ráðstöfunum eins og neyðarsíma fyrir þolendur kynferðisafbrota.

Frekar hafi verið horft til þess að ekki séu börn undir lögaldri á eigin vegum. Þannig hafi aldurstakmark verið sett á tjaldsvæði bæjarins. Þá lýsi það viðbúnaðinum á hátíðinni að ríflega helmingur kostnaðarins við hana sé vegna gæslu.

Túlkað sem útihátíð

Neistaflug á Neskaupsstað sker sig nokkuð úr en sýslumaðurinn þar hefur túlkað það svo að svokallað tækifærisleyfi þurfi fyrir hátíðinni, ólíkt Akureyri og Akranesi.

„Þetta var mjög loðið í upphafi en síðan er þetta af þvílíku umfangi að það hefur verið túlkað svo að það falli undir þessar reglur. Það þurfti að hafa skikk á þessu eins og öðru,“ segir Inger L. Jónsdóttir, sýslumaður á Eskifirði. Allar sömu kröfur og gerðar eru til útihátíða um viðbúnað við kynferðisbrotum séu því til staðar þar. Auk lögreglu sinni björgunarsveitarmenn og héraðslögreglumenn gæslu í bænum á meðan hátíðarhöldin standa yfir.

Vakta stóru helgarnar

Aflið, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, var í samstarfi við skipuleggjendur Einnar með öllu á Akureyri um helgina eins og undanfarin ár. „Við erum með gangandi vaktir á svona stórum helgum. Þá eru tvær í merktum vestum sem ganga um bæinn á kvöldin og næturnar. Við förum inn á tjaldsvæðin og skemmtistaðina og látum vita af okkur,“ segir Jokka Birnudóttir, starfsmaður samtakanna sem eru frá Akureyri.

Þá séu þau með bakvakt og opinn síma allan sólahringinn. Þá sé hægt að kalla út starfsmenn ef það þarf að fara með einhvern á neyðarmóttöku eða annað. „Við erum með mjög öflugar vaktir alltaf á svona stórum helgum,“ segir Jokka.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert