Spá 7% atvinnuleysi í ár

Vinnumálastofnun
Vinnumálastofnun mbl.is/Ómar Óskarsson

Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi muni aukast nokkuð yfir vetrarmánuðina og verði rúmlega 7% í ár, sem er um ½ prósentu minna en gert var ráð fyrir í síðustu spá, og verði komið niður í um 4½% í lok spátímabilsins (2013). Það er heldur meira en spáð var í apríl. Þetta kemur fram í nýjum Peningamálum Seðlabanka Íslands en nýjasta hefti kom út í apríl.

Vísbendingar úr Vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar benda til þess að vinnuaflseftirspurn sé að taka við sér á ný. Á öðrum ársfjórðungi jókst bæði fjöldi starfandi á vinnumarkaði sem og meðalvinnustundafjöldi, borið saman við sama ársfjórðung í fyrra. Þeim sem eru í fullu starfi fjölgaði á meðan starfandi í hlutastarfi fækkaði annan ársfjórðung í röð.

„Þessi þróun bendir til þess að enn sem komið er mæti fyrirtæki aukinni eftirspurn með því að nýta betur áður ónýtta framleiðsluþætti fremur en að ráða nýtt fólk til starfa.

Heildarvinnustundum fjölgaði því um 1% milli ára. Er það í fyrsta sinn sem heildarvinnumagn eykst milli ára síðan á þriðja ársfjórðungi 2008, ef frá er talinn annar ársfjórðungur 2010 þegar heildarvinnumagn jókst um 1,1%.

Sú aukning skýrist þó að miklu leyti af umtalsverðri fjölgun starfandi á aldrinum 55-74 ára. Það er óvenjulegt og endurspeglar líklega úrtaksskekkju, eins og áður hefur verið fjallað um í Peningamálum.

Líklegt er að vinnumagn þá hafi aukist minna en könnunin gaf til kynna; [það] gæti þýtt að aukningin nú sé í reynd meiri en tölur Hagstofunnar sýna," segir í Peningamálum.

Þróun á fjölda atvinnulausra hefur verið svipuð það sem af er ári og hún var í fyrra en fjöldinn er minni og atvinnuleysi mælst tæplega prósentu minna en á sama tíma í fyrra.

Atvinnuleysi að teknu tilliti til árstíðar hefur verið óbreytt frá því í maí eða um 7%. Atvinnuleysi var töluvert minna á öðrum ársfjórðungi en gert var ráð fyrir í spá bankans sem birt var í Peningamálum í apríl.

„Þessi munur skýrist af nokkrum þáttum. Í fyrsta lagi var búist við að skoðun á fjárhagsstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja yrði lokið fyrir sumarbyrjun eins og gert var ráð fyrir í upprunalegu samkomulagi á milli atvinnulífsins, fjármálastofnana og stjórnvalda.

Talið var að endurskipulagning fyrirtækja myndi hafa í för með sér aukið atvinnuleysi um sinn, þótt hún treysti atvinnu til lengri tíma. Endurskipulagning á fjármálum fyrirtækja hefur gengið hægar fyrir sig en vænst var en einnig virðist sem fyrirtækin telji ekki þörf á jafn mikilli fækkun starfa og gert var ráð fyrir í forsendum spárinnar.

Einnig var gert ráð fyrir að þau myndu bregðast við verulega auknum launakostnaði með uppsögnum eða fækkun vinnustunda, en svo virðist sem meginhluta kostnaðaraukningarinnar verði velt út í verðlag," segir í Peningamálum sem komu út í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka