73 af 230 íbúðum í leigu

Af 230 íbúðum sem Landsbankinn á eru 73 í leigu, 74 til sölu og 83 í byggingu eða ekki tilbúnar til sölu.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsbankanum í tilefni umræðna um húsnæðis- og leigumarkað.

„Landsbankinn hefur mótað sér skýra stefnu um sölu fullnustueigna sem miðar að opnu og gagnsæju verklagi og má kynna sér hvernig því er háttað á vef bankans og dótturfélaga.  Viðskiptavinir bankans, væntanlegir kaupendur, samkeppnisaðilar og aðrir hagsmunaaðilar geta kynnt sér það ferli sem unnið er eftir á meðan fullnustueign er í umsýslu bankans. Íbúðarhúsnæði viðskiptavina er eingöngu selt hjá fasteignasölum og er ekki auglýst til sölu á vef bankans eða dótturfélaga hans. Fasteignir eru jafnan skráðar til sölu hjá tveimur viðurkenndum fasteignasölum og eru að lágmarki boðnar til sölu í eina viku áður en gengið er að tilboði.

Bankinn telur mikilvægt að gera grein fyrir þessum málum þar sem því hefur verið haldið fram að bankar og þar með Landsbankinn sitji á íbúðum og haldi þannig uppi verði, bæði á sölu- og leiguíbúðum. Sú staðhæfing er röng. Í eigu bankans eru 230 íbúðir og eru um 20% þeirra á byggingarstigi. Stefna Landsbankans er að setja í sölu allar íbúðir sem bankinn eignast eins fljótt og unnt er.  

Í útleigu eru 73 íbúðir og hefur sá fjöldi farið vaxandi á undanförnum misserum. Íbúðir eru undantekningarlaust leigðar til gerðarþola og miðast leiga við markaðsverð á hverjum tíma en fer aldrei umfram það. Bankinn stundar enga leigumiðlun og leigir aldrei út íbúðir eftir að þær hafa verið tæmdar heldur kemur þeim þá sem fyrst í sölu. Því er ljóst að eignir bankans hafa takmörkuð áhrif á framboð eða verð á leigumarkaði,“ segir í tilkynningunni.

Bankinn bendir einnig á að dótturfélag hans, Reginn, eigi talsvert af byggingarlandi og bankinn hafi unnið að því að finna samstarfsaðila til að nýta þetta land. Besta leiðin til að bæta stöðu á leigumarkaði sé að auka framboð á leiguhúsnæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert