Fara til eins hættulegasta lands í heimi

Í dag fara tveir sendifulltrúar Rauða kross Íslands, Áslaug Arnoldsdóttir og Magna Björk Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingar, til Íraks þar sem þær munu starfa með Alþjóða Rauða krossinum. Landið er yfirleitt talið vera eitt það hættulegasta í heimi ásamt Afganistan og Sómalíu.

Áslaug er einn reyndasti sendifulltrúi Rauða kross Íslands og hefur áralanga reynslu af störfum á átakasvæðum.

Magna Björk mun starfa í þrjá mánuði í borginni Najaf í Írak. Hún mun sjá um þjálfun lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraflutningamanna á gjörgæsludeildum í Najaf. Þetta er í annað sinn sem Magna starfar sem sendifulltrúi Rauða kross Íslands, en hún vann í tjaldsjúkrahúsi Rauða krossins eftir jarðskjálftana miklu á Haítí árið 2010.

Þótt landið sé afar hættulegt stendur Rauði krossinn vel að öryggismálum starfsmanna sinna. Að sögn Sólveigar Ólafsdóttur sem starfar hjá samtökunum má rekja flest slys og dauðsföll sendifulltrúa Rauða krossins til umferðarslysa.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert