Ekkert er útskýrt til hvaða aðgerða Geir H. Haarde hefði átt að grípa til að varna yfirvofandi fjármálakreppu. „Heldur er allt skilið eftir opið,“ sagði Andri Árnason, verjandi Geirs við málflutning um frávísun málsins, sem fram fór við Landsdóm í Þjóðmenningarhúsinu í morgun. Hann lauk málflutningi sínum klukkan 11.
Andri sagði að meðal einstakra ákæruatriða á hendur Geir væri alvarleg vanræksla við að afstýra fyrirsjáanlegri hættu. „Hér er ekkert útskýrt til hvaða aðgerða hefði verið hægt að grípa, þarna hefði þurft að koma fram lágmarksrökstuðningur,“ sagði Andri. „Þarna er heldur ekki útskýrt um hvaða hættu er verið að ræða.“
Í lok málflutnings síns rifjaði Andri upp þá tillögu Atlanefndarinnar svokölluðu um að fjórir ráðherrar yrðu ákærðir.
„Hvaða málefnalegu forsendur urðu til þess að víkja til hliðar þessu mati þingmannanefndarinnar?“ spurði Andri og sagðist búast við skilmerkilegum útskýringum ákæruvaldsins.