Allt í biðstöðu vegna ESB

Bú þeirra Skúla Einarssonar og Ólafar Ólafsdóttur á Tannstaðabakka stendur …
Bú þeirra Skúla Einarssonar og Ólafar Ólafsdóttur á Tannstaðabakka stendur á mörgum fótum. mbl.is/Helgi

„Á meðan ESB-aðild er í deiglunni eru menn afhuga því að fara í framkvæmdir í landbúnaði, þótt það þyrfti að gerast. Þessi umsókn setur allt í biðstöðu,“ segir Skúli Einarsson, bóndi á Tannstaðabakka í Hrútafirði og formaður Félags kjúklingabænda.

Aðeins hefur borið á umræðu um að skort hafi kjúklinga í verslanir og að flytja þyrfti meira inn. Sala á kjúklingakjöti hefur aukist á undanförnum árum en framleiðslan stendur að mestu í stað, eins og Skúli bendir á. „Sölutölur segja okkur að það þyrfti að auka framleiðsluna lítillega en enginn hefur áhuga á því á meðan þessi umsókn er í gangi,“ segir Skúli.

Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag segir hann, að opinberar tölur sýni að 50 til 60 tonn af kjúklingakjöti séu til í birgðum í landinu. „Það má lítið út af bregða í framleiðslunni til að það klárist og kannski ekki skrítið að kaupmenn séu taugastrekktir þegar birgðirnar eru ekki meiri,“ segir hann.

Kjúklingabændur eru í stöðugri baráttu við að halda frá sér kamfýlóbakter og öðrum matarsýkingum. Skúli segir sérstaklega mikilvægt að endurnýja elstu kjúklingahúsin í landinu vegna þess að erfiðara sé að halda þeim smitfríum en þeim nýrri. „Menn reyna eftir bestu getu að laga þau til og hreinsa í stað þess að byggja ný. Það verður pattstaða í þessu þangað til ESB-málin skýrast,“ segir Skúli.

Hann telur að opnum markaðarins sem fylgir aðild að Evrópusambandinu myndi leika kjúklingaræktina grátt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka