Rúmlega helmingur landsmanna vill að Alþingi fjalli ítarlega um frumvarp Stjórnlagaráðs til stjórnarskrár, samkvæmt nýrri könnun MMR.
Nokkur munur reyndist á afstöðu fólks eftir stjórnmálaskoðunum. MMR kannaði hver afstaða almennings er til aðkomu Alþingis við afgreiðslu nýs frumvarps Stjórnlagaráðs til stjórnarskrár.
Í könnuninni kom fram að rúmlega helmingur þeirra sem tók afstöðu vildi að Alþingi fjallaði ítarlega um frumvarp Stjórnlagaráðs til stjórnarskrár eða 57,4%.
Ef litið er til afstöðu fólks eftir stjórnmálaskoðun kemur í ljós að 69,9% þeirra sem tóku afstöðu og sögðust styðja Sjálfstæðisflokkinn vildu að Alþingi fjallaði ítarlega um frumvarp Stjórnlagaráðs samanborið við 49% stuðningsfólks Vinstri grænna, 54,2% Samfylkingarfólks og 57,8% Framsóknarfólks.
Að sama skapi reyndist einnig munur á afstöðu fólks til aðkomu Alþingis að afgreiðslu frumvarpsins eftir stuðningi við ríkisstjórnina.
Af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar og sögðust styðja ríkisstjórnina vildu 46,7% að Alþingi fjallaði ítarlega um frumvarp Stjórnlagaráðs til stjórnarskrár borið saman við 61,4% þeirra sem studdu ekki ríkisstjórnina.